Innlent

Allt gert til að sporna við atvinnuleysi

Allt verður gert til að koma í veg fyrir að svörtustu spár um atvinnuleysi rætist að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Hann vonast til þess að hægt verði að lækka stýrivexti snemma á næsta ári.

Hátt í tíu þúsund manns eru nú á atvinnuleysiskrá hér á landi þar af um sex þúsund á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tölum vinnumálastofnunar.

Atvinnulausum hefur fjölgað hratt undanfarna mánuði og er búist við því að atvinnuleysi í desember verði í kringum 5,5 prósent. Svörtustu spár gera ráð fyrir um 10 prósenta atvinnuleysi á næsta ári en sumir óttast að það verði jafnvel meira. Forsætisráðherra vonast þó til þess að atvinnuleysi verði ekki svo mikið.

Hann segist leyfa sér að trúa því. Hann segir að einhver hluti af því fólki sem nú sé á skrá sé í hlutastarfi vegna þess að reglum hafi verið breytt og fólk eig nú rétt á bótum þó það sé ekki búið að missa vinnuna alveg. Geir segir það vera keppikefli ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að allar svartsýnustu spárnar um atvinnuleysi nái að rætast.

Háir stýrivextir hafa leikið fyrirtæki í landinu grátt. Óttast er að mörg þeirra lendi í verulegum vandræðum með tilheyrandi uppsögnum og jafnvel gjaldþroti verði vextir ekki lækkaðir fljótlega. Geir segir að ef að efnhagsáætlunin sem er í gangi og í samstarfi við gjaldeyrissjóðinn gangi eftir eins og hún hafi verið að gera síðustu vikurnar þá megi reikna með því að vextirnir geti lækkað mjög hratt á næsta ári. Þessi áætlun gangi út á að koma verðbólgunni hratt niður og vöxtunum í kjölfarið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×