Innlent

Ísland getur gegnt stóru hlutverki í Mið-Austurlöndum

Óli Tynes skrifar

Fundi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, á Bessastöðum lauk fyrir stundu.

Á blaðamannafundi eftir viðræður forsetanna sagði Abbas að það væri löngu liðin tíð að aðeins stórveldi réðu því sem gerðist í heiminum. Hann sagði að það væri ekki stærð þjóða sem skipti máli heldur væru það þær áherslur sem þær hefðu í samskiptum sínum við aðra.

Abbas sagði að á fundi sínum með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hefði hann skynjað djúpan vilja til þess að koma að vandamálum Mið-Austurlanda og reyna að verða þar að liði. Með sögu sína að baki væri margt sameinginlegt með Palestínumönnum og Íslendingum. Báðar þjóðir hefðu lengi þurfti að berjast fyrir sjálftstæði sínu. Íslandi hefði tekist það á friðsamlegan hátt og bæði Palestínumenn og Ísraelar gætu mikið af því lært.

Palestínski forsetinn sagði að Ísland gæti vissulega gegnt stóru hlutverki í Mið-Austurlöndum og hann vonaði að eftir fundinn með forseta Íslands yrði sú raunin. Mahmoud Abbas lagði áherslu á að Ísland ógnaði engum og hefði engra hagsmuna að gæta. Því nyti það mikils trausts sem gæti vel gagnast í aðkomu að stórum heimsmálum.

Abbas mun á eftir snæða hádegisverð á Bessastöðum ásamt fylgdarmönnum sínum en eftir hádegið fer hann til fundar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra. Frá Íslandi heldur Abbas vestur um haf til þessa að ræða við George Bush Bandaríkjaforseta um friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs.

Alls eru 28 manns í fylgdarliði Abbas, þar á meðal forsætisráðherrann Ahmed Qurie og Saeb Erekat, aðalsamningamður Palestínumanna. Abbas kom til landsins eftir miðnætti og gisti á Hilton-hótelinu í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×