Innlent

Erlendum nemum fjölgar ört í HÍ

Erlendum nemum hefur fjölgað ört í Háskóla Íslands ef litið er til síðustu ára. Um 400 nemendur sóttu í ár um grunnnám við Háskóla Íslands að sögn Gísla Fannberg hjá kennslusviði HÍ en fyrir fimm árum voru um það bil helmingi færri umsóknir.

Er þetta svipaður fjöldi umsókna og í fyrra en þá var alger sprenging í aðsókn erlendra nemenda við skólann. 230 sóttu um skiptinám við skólann en skiptinemum hefur einnig fjölgað ört síðastliðin ár.

Mikill fjöldi þeirra sem sækir um grunnnám við HÍ sækir um íslensku fyrir erlenda stúdenta en alls sóttu 200 manns um það nám í fyrra og voru 100 teknir inn.

Gísli segir að til þess að geta stundað annað grunnnám við skólann sé frekar mikilvægt að kunna íslensku en sumir sæki þó um nám í eina önn eða eitt ár og geti þá nýtt sér þá kúrsa sem eru á ensku í skólanum. Tvær leiðir í mastersnámi eru komnar á ensku við HÍ en það er alþjóðalögfræði og miðalarfræði og eru þær leiðir vinsælar að sögn Gísla.

Flestir þeir sem koma hingað sem skiptinemar eru frá Finnlandi eða Þýskalandi en Þjóðverjar eru einkar hrifnir af Íslandi að sögn Ölmu Joensen hjá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.

Vinsælustu fögin eru íslenska og jarðfræði en í síðarnefnda faginu eru fleiri námskeið kennd á ensku en í öðrum fögum vegna fjölda erlendra nema. Um 200 Íslendingar fara ár hvert í skiptinám erlendis og hefur sá fjöldi verið frekar stöðugur síðastliðin ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×