Innlent

Vinna að eftirlaunafrumvarpi eftir sumarleyfi

Vinna við breytingar á á lögum um eftirlaun þingmanna og ráðherra hefst í lok sumars að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra. Formenn allra þingflokka munu funda um málið að loknum sumarleyfum.

Í stjórnarsáttmála ríkistjórnarflokkanna er gert ráð fyrir því að hin umdeildu eftirlaunalög verði tekin til endurskoðunar. Lögin voru samþykkt árið 2003 en þau tryggja æðstu embættismönnum landsins betri lífeyriskjör en almenningur býr við.

Samfylkingin boðaði breytingar á þessum lögum fyrir síðust alþingiskosningar. Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lagði á síðasta ári fram frumvarp til breytingar á lögunum en frumvarpið sat hins vegar fast í allsherjarnefnd.

Í vor náðist svo samkomulag milli formanna stjórnmálaflokkanna um að semja nýtt frumvarp í sumar sem leggja á fram þegar þing kemur saman í haust.

Að sögn Ingibjargar er forsætisráðherra með málið til meðferðar. Gerir hún ráð fyrir því að það verði boðað til fundar með formönnum flokkanna núna um leið og fólk kemur úr sumarleyfum en ekki er búið að vinna frumvarpið sjálft.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×