Innlent

Ekki hrifinn af vinningstillögunni

Kjartan Magnússon er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að vinningstillaga að Listaháskóla Íslands falli ekki nógu vel að götumynd Laugavegar en hann telur æskilegt þeirri mynd verði haldið. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

,,Af því leiti sem ég hef náð að kynna mér vinningstillöguna þá hefði ég viljað að hún félli aðeins betur að þeirri byggð sem fyrir er á Laugaveginum," segir Kjartan.

Styr hefur staðið um vinningstillöguna sem gerir ráð fyrir að nýtt hús fyrir Listaháskólann geri ráð fyrir því að hús númer 43 og 45 við Laugaveg verði rifin en byggt verði við hús númer 41.

,,Ég var búinn að heyra þá hugmynd áður að það væri hægt að nota eitthvað af þessum gömlu húsum jafnvel sem inngang í nýbygginguna og mér fannst sú hugmynd mjög spennandi," segir Kjartan.

Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskólans, segir lykilatriði að torgið í tillögunni fái að halda sér og því þurfi að rífa húsin tvö. Magnús Skúlason, fyrrverandi formaður Húsafriðunarnefndar sem mun taka sæti í skipulagsráði í stað Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, er andvígur niðurrifinu og staðsetningu Listaháskólans við Laugaveg.

Gísli Marteinn Baldursson og Júlíus Vífill Ingvarsson hafa ekki myndað sér skoðun á vinningstillögunni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×