Lífið

Einar Bárðar heldur Idol-námskeið

Einar Bárðarson hyggst kenna keppendum í Idol öll trixin í bókinni áður en þeir leggja verk sín í dóm.
Einar Bárðarson hyggst kenna keppendum í Idol öll trixin í bókinni áður en þeir leggja verk sín í dóm.

„Fólk hefur leitað mikið til mín, sérstaklega krakkar sem eru reiðubúnir að leggja allt í sölurnar. Ég er því svona að spá í að slá upp skyndinámskeiði í Idol-fræðum í kringum inntökuprófin,“ segir Einar Bárðarson, fyrrum dómari í Idol-stjörnuleit Stöðvar 2 og umboðsmaður Íslands. Einar þekkir inntökupróf út og inn, skipulagði tvö slík sjálfur, fyrir Nylon og Luxor, og sat eins og áður segir í Idol-dómnefndinni fyrir tveimur árum.

Einar sagðist ekki vera búinn að leggja námskeiðið upp, þar yrði þó farið yfir lagaval, allt inntökuferlið og hvernig fólk eigi að koma fyrir dómnefndina. „Maður fer bara yfir þessa hernaðartaktík sem þetta byggist allt á,“ útskýrir Einar en síðasti keppandinn sem hann leiddi í gegnum svona hæfileikakeppni vann hana; sjálfur Jógvan frá Færeyjum. „Þannig að maður hefur næmt auga fyrir þessu,“ bætir Einar við.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu hefur dómnefndinni algjörlega verið skipt út. Í staðinn fyrir þau Einar, Pál Óskar, Siggu Beinteins, Bubba Morthens og Þorvald Bjarna eru fóstbræðurnir Björn Jörundur og Jón Ólafs úr Ný dönsk sestir í dómarasætið auk Selmu Björnsdóttur. Áheyrnarprufurnar fara fram á Hilton-hótelinu við Suðurlandsbraut 10. janúar en kynnar eru sem fyrr þeir Jói og Simmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.