Innlent

Ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hafnarstræti, vettvangur ódæðisins.
Hafnarstræti, vettvangur ódæðisins. MYND/Þorvaldur Ö. Kristmundsson

Í dag verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ákæra á hendur tæplega þrítugum karlmanni sem gefin er að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa slegið mann í höfuðið með flösku, slegið í andlit hans og sparkað í líkama.

Átti árásin sér stað í Hafnarstræti í október 2006. Fórnarlambið hlaut allmörg sár og skurði og bólgur á stóru svæði. Brotið telst samkvæmt ákæru varða við 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga en sú grein fjallar um meiri háttar líkamsárásir og tekur sérstaklega til þess að árás sé sérstaklega hættuleg, t.d. með tilliti til aðferðar eða þeirra tækja sem notuð eru. Refsirammi brota samkvæmt 218. grein er allt að 16 árum.

Auk refsingarkröfu ákæruvaldsins krefst fórnarlambið bóta að fjárhæð rúmlega 600.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×