Erlent

Tuttugu og tvö þúsund látnir í Búrma

Tala látinna eftir fellibylinn í Búrma síðastliðna helgi vex hröðum skrefum. Nú er staðfest að 22 þúsund manns hafi farist en mörg þúsund er saknað og er óttast að þeir séu allir látnir. Erfiðlega gengur að koma hjálpargögnum til hamfarasvæðanna.

Hjálparstofnanirnar reyna nú hvað þær geta til að koma hjálpargögnum til þurfandi á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti þegar fellibylurinn Nargis fór yfir Búrma á föstudag, laugardag og sunnudag.

Eitthvað hefur verið á reiki hvað margir fórust í hamförunum en ríkisfjölmiðillinn í Búrma hefur eftir yfirvöldum að 22 þúsund manns hafi farist og tuga þúsunda sé saknað. Hundruð þúsunda eru án vatns og rafmagns. Enn hefur ekki náðst samband við sum svæði sem urðu illa fyrir barðinu á fellibylnum.

Herforingjastjórnin í Búrma hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir samvinnu við erlendar stofnanir. Herforingjarnir hafa óskað eftir aðstoð frá hverjum sem getur lagt hönd á plóginn og þykir það sýna vel hve neyðin er mikil í landinu.

Herforingjarnir hafa einnig ákveðið að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá landsins þar sem eyðileggingin er mest, þar á meðal í Rangoon. Kjósa átti um næstu helgi.

Hjálparstofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna segja það gagnrýnivert að ekkert kerfi hafi verið til staðar sem hefði varað við fellibylnum með góðum fyrirvara. Fólk hafi ekki haft tíma til að leita skjóls áður en bylurinn skall á.

Laura Bush, forsetafrú í Bandaríkjunum, gagnrýndi herforingjastjórnina í Búrma harðlega í morgun fyrir að hafa ekki varað íbúa við yfirvofandi hamförum í tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×