Handbolti

Silfrið tryggt - gullið bíður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson á fullu í leiknum í dag.
Ólafur Stefánsson á fullu í leiknum í dag. Mynd/Vilhelm

Ísland er komið í úrslitaleikinn í keppni í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking. Ísland lagði Spán í undanúrslitunum, 36-30.

Leiknum var lýst beint á Vísi. Lesa má lýsinguna hér að neðan.

Ísland er þar með búið að tryggja sér silfurverðlaun á Ólympíuleikunum og spila við Frakka um gullið á sunnudaginn. Frakkar hafa ekki tapað leik til þessa á leikunum en gert eitt jafntefli - gegn Pólverjum sem Ísland vann í fjórðungsúrslitum.

Leikurinn gegn Frökkum hefst klukkan 07.45 á sunnudagsmorgun.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur til verðlauna á stórmóti í handbolta og í fyrsta sinn sem Ísland vinnur til verðlauna á Ólympíuleikum í liðsíþrótt. Alls verða þetta fjórðu verðlaun Íslands á Ólympíuleikum en ef Ísland vinnur á sunnudagsmorgun verður fyrsta ólympíugull Íslands frá upphafi staðreynd.

Ísland byrjaði glæsilega í leiknum og komst í 5-0 forystu. Spánverjar jöfnuðu í stöðunni 9-9 en Ísland náði aftur frumkvæðinu í leiknum og leiddu í hálfleik, 17-15.

Síðari hálfleikur var glæsilegur. Ísland yfirsteig hverja hindrunina á fætur annarri og seig hægt og rólega fram úr. Spánverjar áttu engin svör, hvorki í vörn né sókn. Alltaf þegar Ísland missti mann út af eða Spánverjar náðu að skora, áttu Íslendingar alltaf svar.

Ísland fór með sex hraðaupphlaup í leiknum og annað eins af dauðafærum á línunni og eftir gegnumbrot. Þrátt fyrir það skoraði Ísland 36 mörk sem eitt og sér er hreint ótrúlegt afrek.

Björgvin Páll varði 22 skot í leiknum og átti frábæran leik. Sverre, Ingimundur og Sigfús stóðu sig frábærlega í vörninni og fengu góðan stuðning frá félögum sínum.

Markaskorunin dreifðist á níu menn í sókninni og segir það allt sem segja þarf. Arnór Atlason náði sér ekki vel á strik í sókninni en þá kom hin skyttan - Logi Geirsson - og fór á kostum. Hann skoraði sjö mörk í dag og var markahæstur ásamt Guðjóni Val Sigurðssyni.

En það er ómögulegt að taka einhvern út enda var þetta sigur liðsheildarinnar. Guðmundur og þjálfarateymi hans eiga gríðarmikið hrós skilið.

Tölfræði leiksins:

Ísland - Spánn 36-30 (17-15)

Gangur leiksins: 5-0, 8-3, 9-7, 9-9, 13-9, 13-13, 16-14, (17-15), 18-15, 20-18, 22-20, 24-20, 27-22, 30-24, 33-26, 33-29, 34-30, 36-30.

Mörk Íslands (skot):

Logi Geirsson 7 (10)

Guðjón Valur Sigurðsson 7 (12)

Snorri Steinn Guðjónsson 6/1 (11/1)

Ólafur Stefánsson 5 (8)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 3 (3)

Sigfús Sigurðsson 2 (2)

Ingimundur Ingimundarson 2 (2)

Róbert Gunnarsson 2 (4)

Alexander Petersson 2 (5)

Arnór Atlason (3)

Skotnýting: 36/60 (60%)

Vítanýting: Skorað úr 1 af 1.

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 22 (52/3, 42%, 60 mínútur)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 9 (Guðjón Valur 3, Ingimundur 2, Alexander 2, Ólafur 1 og Sigfús 1).

Fiskuð víti: Ólafur 1.

Utan vallar: 18 mínútur.

Markahæstir hjá Spáni:

Albert Rocas 7

Iker Romero 5

Juan Garcia 5

Carloe Prieto 4

Skotnýting: 30/57 (53%)

Vítanýting: Skorað úr 2 af 3.

Varin skot:

David Barrufet 18 (47/1, 38%, 50 mínútur)

Jose Hombrados 2 (9, 22%, 10 mínútur)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 3

Utan vallar: 8 mínútur.

Rautt spjald: Carlos Prieto, 47:55 (þriðja brottvísun)

13.53 Smá pæling

Ísland klúðraði að minnsta kosti sex hraðaupphlaupum í leiknum og alla vega 4-5 dauðafærum af línunni og eftir gegnumbrot. Samt skorar Ísland 36 mörk í leiknum - hvernig á það að vera hægt?

Reyndar skal tekið fram að Ísland vann stundum boltann eftir að hafa klúðrað dauðfærinu.

Ekki er tilgangurinn með þessu að draga fram hið neikvæða heldur að undirstrika hið jákvæða. Ísland spilaði stórkostlega í þessum leik og sóknin í seinni hálfleik var hreint ótrúleg.

13.51 Íþróttamálaráðherrann grætur líka

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er tárvot í viðtali á Rúv. "Tíminn líður hratt á gervihnattaöld - en mér fannst tíminn líða ótrúlega hægt í þessum leik," sagði hún.

Orð að sönnu.

13.46 Geðshræring

Það er ekkert annað en geðshræring sem á sér stað hjá íslenska landsliðinu. Ólafur Stefánsson og Guðmundur Guðmundsson gráta. Tilfinningin hjá undirrituðum er ólýsanleg en hvað eru þessir menn að ganga í gegnum?

Hversu lengi hefur íslenska þjóðin beðið eftir þessu? Fyrstu verðlaun íslenska handboltalandsliðsins á stórmóti er staðreynd og fjórðu verðlaun Íslands á Ólympíuleikum sömuleiðis. Fyrstu verðlaun Íslands á Ólympíuleikunum í liðsíþrótt staðreynd.

13.43 Ísland - Spánn 36-30

Björgvin ver tvisvar í sömu sókninni. Ísland missir boltann svo strax og Spánverjar skora þegar ein mínúta er eftir. Fjögurra marka forysta. Ísland í úrslit. Guðjón Valur skorar sárþjáður. Ótrúlegt. Tíminn líður út og Ísland vinnur.

Ég er orðlaus. Ég er orðlaus. Ég er orðlaus.

13.41 Ísland - Spánn 34-29

Ísland missir boltann en Spánverjar misnota skot. Ísland í sókn þegar tæpar þrjár eru eftir. Þeir ná þokkalega langri sókn og Sigfús skorar!!!!!! Fim mörk og rúmar tvær eftir.

13.38 Ísland - Spánn 33-29

Róbert misnotar skot á línunni og Spánverjar svara. Ísland með boltann - þrjár og hálf eftir. Spennan er gjörsamlega óbærileg. Undirritaður neitar að fagna sigri fyrr en þetta er endanlega í höfn.

13.36 Ísland - Spánn 33-28

Fjórar og hálf eftir. Fimm marka forysta þó svo að enn eitt hraðaupphlaupið hafi farið í vaskinn. Sex talsins - á þetta að vera hægt?

13.33 Ísland - Spánn 33-27

Já!!!!!!! Sjö mörk. Guðjón Valur úr horninu. Tæpar sjö mínútur eftir. Þetta er ekki á mig leggjandi. En Spánverjar svara.

13.30 Ísland - Spánn 31-26

Logi með glæsilegt mark, sitt sjöunda í leiknum. Sigfús fær að fjúka út af og Spánverjar skora. Fimm marka munur tæpar átta eftir. Ísland tapar boltanum í næstu sókn en vinna hann aftur. Snorri í hraðaupphlaupi en fimmta hraðaupphlaupið er farið forgörðum. Ótrúlegt.

13.27 Ísland - Spánn 30-25

Spánverjar skora en Carlos Prieto hefur fengið sína þriðja brottvísun og þar með rautt. Hann er eini Spánverjinn sem hefur fengið brottvísun í leiknum. En Spánverjar vinna boltann.

13.25 Ísland - Spánn 30-24

Róbert með glæsilegt mark af línunni og Spánverjar missa boltann. Alex í hraðaupphlaupi en lætur verja frá sér. Ísland heldur boltanum og L&I23 skorar sitt sjötta mark í leiknum.

"Höldum áfram þolinmæðinni," segja íslensku leikmennirnir í leikhléi Spánverja.

13.23 Ísland - Spánn 28-24

Spánn skorar tvö í röð en Logi svarar. Fjórtán eftir. Björgvin ver og Ísland á boltann.

13.18 Ísland - Spánn 27-22

Óli með gegnumbrot. Fimm marka munur. Já!!!!!

13.17 Ísland - Spánn 26-22

Tvö frá hvoru liði. Ísland heldur góðri forystu. Átján eftir.

13.14 Ísland - Spánn 24-20

Tvö íslensk mörk í röð. Frábær vörn þessa stundina. Gjörsamlega stórkostleg. 21 mínúta eftir. Spennan er óbærileg. Hreint óbærileg.

13.12 Ísland - Spánn 22-20

Skorað á báða bóga en Ísland heldur tveggja marka forystu. Spánverjar missa mann af velli.

13.07 Ísland - Spánn 19-17

Nú fékk Arnór að fjúka út af og Spánverjar minnka muninn í eitt. En Logi svarar.

13.04 Ísland - Spánn 18-16

Spánverjar tapa boltanum í fyrstu sókninni og Ingimundur skorar úr hraðaupphlaupi. En þá fiska Spánverjar Sverre út af og skora.

12.54 Ísland - Spánn 17-15 - hálfleikur

Ótrúlegur fyrri hálfleikur. Ísland komst í 5-0, svo skora Spánverjar fjögur í röð og jafna 9-9. Ísland kemst í 13-9 og eiga tvo möguleika að komast aftur fimm yfir. Spánn minnkar muninn í 14-13. Ísland náði að halda frumkvæðinu eftir það og eru nú tveimur yfir.

Vörnin byrjaði frábærlega en gaf eftir undir lok hálfleiksins. Björgvin hefur verið frábær og varið tólf skot í markinu. Sóknin hefur verið fín en dottið niður á köflum. Guðjón Valur hefur misnotað þrjú hraðaupphlaup sem er afar, afar ólíkt honum.

Ísland hefur verið utan vallar í átta mínútur, Spánverjar tvær - það er líka áhyggjuefni.

En Ísland er með forystuna og vonandi verður það þannig áfram í síðari hálfleik.

Mörk Íslands (skot):

Snorri Steinn Guðjónsson 6/1 (8/1)

Ólafur Stefánsson 3 (4)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 (2)

Alexander Petersson 2 (3)

Guðjón Valur Sigurðsson 2 (5)

Ingimundur Ingimundarson 1 (1)

Logi Geirsson 1 (2)

Arnór Atlason (3)

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 12 (27/1, 44%, 30 mínútur)

12.49 Ísland - Spánn 14-13

Þvílíkar sviptingar. Spánverjar hafa jafnað metin. Vörnin er aðeins farin að gefa eftir. En Óli svarar og kemur Íslandi yfir.

12.45 Ísland - Spánn 13-11

Úff. Ísland átti tvö tækifæri til að komast aftur fimm mörkum yfir. Guðjón Valur brenndi af hraðaupphlaupi. Sínu þriðja í leiknum. Spánverjar skora aftur og minnka muninn í tvö. Vörnin hefur verið mjög góð og sóknin á köflum mjög fín. En það verður að nýta dauðafærin - það er algjör skylda. Björgvin hefur verið frábær í markinu og varið tíu skot.

12.41 Ísland - Spánn 12-9

Þrjú íslensk mörk í röð og þar af tvö í undirtölu. Gátu komist fjórum yfir en Guðjón Valur steig á línuna í hraðaupphlaupi. Björgvin í ham.

12.36 Ísland - Spánn 9-9

Spánverjar jafna eftir glórulausa línusendingu Loga. Í næstu sókn var sóknarbrot dæmt á Ólaf er hann skoraði og Spánverjar gátu komist yfir. En Björgvin Páll varði og Ísland er með boltann. En Spánverjar missa mann af velli.

12.34 Ísland - Spánn 9-8

Enn missum við mann af velli. Í þetta sinn Alexander. Spánverjar hefðu aftur getað jafnað en Björgvin Páll jafnaði með því að verja úr hraðaupphlaupip.

12.32 Ísland - Spánn 9-7

Sóknin hefur gengið skelfilega og Spánverjar áttu tök á því að jafna. Spánverjar skoruð fjögur mörk í röð en Íslendingar náðu loksins að skora aftur og ná tveggja marka forystu á ný.

12.28 Ísland - Spánn 8-6

Sverre fékk brottvísun og Spánverjar hafa skorað þrjú í röð. Klaufaskapur í sókninni hefur verið dýrkeyptur.

12.25 Ísland - Spánn 8-3

Spánverjar voru heppnir að skora þriðja markið sitt en Íslendingar gefa ekkert eftir.

12.22 Ísland - Spánn 6-1

Ég gleymdi að taka fram að Ingimundur var samt rekinn af velli í stöðunni 4-0. Spánverjar hafa skorað tvö fyrstu mörk sín í leiknum en Íslendingar halda áfram að nýta sóknir sínar. Allar sóknir nýttar síðan í fyrstu sókninni.

12.20 Ísland - Spánn 5-0

Ja hérna! Þvílík byrjun! Vörnin er gjörsamlega stórkostleg og Spánverjar tapa boltanum hvað eftir annað. Fyrst komst Guðjón Valur í hraðaupphlaup en það var varið. Ísland hélt samt boltanum og Snorri Steinn skoraði. Svo í næstu sókn skoraði Alexander úr hraðaupphlaupi og Spánverjar tóku leikhlé.

12.17 Ísland - Spánn 3-0

Arnór brennir af fyrsta skotinu en Alexander stelur boltanum og skorar fyrsta markið úr hraðaupphlaupi. Björgvin ver svo og Snorri Steinn skorar. Spánverjar missa aftur boltann og Guðjón Valur skorar úr hraðaupphlaupi. Þvílík byrjun!!!!!

12.15 Ísland - Spánn 0-0

Ísland byrjar með boltann og leikur í rauðu.

12.10 Leið Spánverja í undanúrslit

Spánn varð í fjórða sæti A-riðils, jafnir Króötum á stigum. Þeir unnu þrjá leiki en töpuðu tveimur. Þeir rétt mörðu til að mynda Brasilíumenn í lokaumferð riðlakeppninnar í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kæmist áfram í fjórðungsúrslitin. Spánverjum hefði þó dugað jafnteflið.

Leikir Spánverja:

Króatía - Spánn 31-29

Spánn - Pólland 30-29

Kína - Spánn 22-36

Frakkland - Spánn 28-21

Spánn - Brasilía 36-25

Suður-Kórea - Spánn 24-29

12.03 Stutt í leik

Nú eru ekki nema tólf mínútur í leikinn. Spennan magnast. Það er í sjálfu sér ekkert sem þarf að segja nema - Áfram Ísland!

11.55 Allir að taka mörgæsina!

Snorri Steinn fer á kostum í fagni sínu - mörgæsinni - sem var verið að sýna í upphitun Rúv rétt í þessu. Það má einnig sjá hér.

11.45 Hálftími í leik

Velkomin til leiks hér á Vísi þar sem einhverjum mikilvægasta íþróttakappleik í sögu þjóðarinnar hefst eftir hálftíma. Um er að ræða viðureign Íslands og Spánar í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í Peking.

Þetta er ekki flókið. Sigur tryggir silfrið og gefur tækifæri á að vinna gullið. Tap veitir þó möguleika að vinna til bronsverðlauna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.