Innlent

Vilja akvæðagreiðslu um aðildarviðræður

Þingmaður, fyrrverandi þingmaður og varaþingmaður Framsóknarflokksins hvetja til þess að lagt verði í þjóðaratkvæði næsta vor hvort Íslendingar eigi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þar með taka þau undir aðferðarfræði Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra.

Þingmaðurinn Birkir Jón Jónsson, þingmaðurinn fyrrverandi Sæunn Stefánsdóttir og varaþingmaðurinn fyrrverandi Páll Magnússon, sem öll teljast til yngri deildar Framsóknarflokksins, hvetja til þess í grein í Fréttablaðinu í dag, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu næsta vor um það hvort Íslendingar eigi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Rök þremenninganna eru þau að ástand efnahagsmála og alþjóðlegs viðskiptaumhverfis sé með þeim hætti að nauðsynlegt sé að fá hið fyrsta úr því skorið hvort íslenska þjóðin sé reiðubúin í slíkar viðræður. Ef þjóðin samþykki þær fáist í eitt skipti fyrir öll úr því skorið hverju Íslendingar fái áorkað með hagsmuni sína í beinum viðræðum við Evrópusambandið.

Ef þjóðin hafni hins vegar viðræðum geti stjórnvöld aðilar vinnumarkaðarins og almenningur einhent sér að þróa íslenskt samfélag og efnahagsumhverfi áfram út frá þeirri stöðu sem blasi við.

Sjálf taka þau ekki afstöðu til þess hvort sækja eigi um aðild, en greinilegt er að þessir ungu Framsóknarmenn telja mikilvægt að kalla fram vilja þjóðarinnar í málinu. Þessi tillaga er í samræmi við vegvísi sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur kynnt. En í þeim vegvísi er gert ráð fyrir að fyrsta skrefið í Evrópumálum ætti að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort fara eigi í aðildarviðræður.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×