Innlent

Telja fráleitt að Bretar sinni loftrýmiseftirliti

MYND/GVA

Þingmenn úr röðum stjórnarandstöðunnar mótmæltu því að kalla hingað breska hermenn til loftrýmiseftirlits í desember á sama tíma og við ættum í harðvítugum deilum við Breta. Formaður utanríkismálanefndar sagði óheppilegt að Bretar kæmu hingað við slíkar aðstæður.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, vakti athygli á frétt Fréttablaðsins af því að ákveða ætti í dag hvort Bretar kæmu hingað til loftrýmiseftirlits. Benti hann á að þingflokkur Vinstri - grænna hefði lagt fram þingsályktunartillögu í haust um að þessi gæsla yrði afþökkuð.

Benti hann á að Össur Skarphéðinsson hefði sem starfandi utanríkisráðherra sagt að það myndi misbjóða íslensku þjóðarstolti að fá Breta hingað þegar þeir hefðu beitt hryðjuverkalögum gegn Íslandi og íslenskum stjórnvöldum. Spurði Árni hvort það ætti að vera jólagjöf til Íslendinga að Bretar kæmu hingað og sagðist sammála Össuri. Spurði hann Bjarna Benediktsson, formann utanríkismálanefndar, hvort hann væri sama sinnis.

Staðan í viðræðum við Breta viðkvæm

Bjarni sagði stöðuna í viðræðum við Breta vegna Icesave-reikninganna væri viðkvæm og mikilvægt væri að lenda þeim viðræðum farsællega. Sagðist hann hins vegar telja það óheppilegt að þjóð sem hefði beitt okkur hryðjuverkalögum kæmi hingað til loftrýmiseftirlits.

Bjarni benti enn fremur á að Íslendingar hefðu haft frumkvæði að umræddu loftrýmiseftirliti á vettvangi NATO í kjölfar þess að Bandaríkjaher hvarf af landi brott. Aðstæður væru óheppilegar og óheppilegt að Bretar kæmu hingað til loftrýmiseftirlits ef ekki yrði í millitíðinni búið að finna ásættanlega lausn í deilunni um Icesave.

Hvar er sjálfsvirðingin?

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði við umræðuna algerlega fráleitt við núverandi aðstæður að fá Breta til að leika sér með herþotur hér við land um jólin á okkar kostnað. Sagðist hann ekki vita til þess að til stæði að ráðast á Ísland í desember. „Hvar er sjálfsvirðingin ef við ætlum að láta þetta yfir okkur ganga," sagði Steingrímur. Það ætti að senda Bretum þeim skilaboð að þeir hefðu ekkert hingað að gera og þeir ættu heldur að reyna að leysa deiluna við íslensk stjórnvöld um Icesave.

Jón Magnússon, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, tók í sama streng og sagði íslensku þjóðina þurfa að hafa þá sjálfsvirðingu að afþakka loftrýmiseftirlitið. Sagði hann það bruðl að henda hundruðum milljóna í í loftrýmiseftirlit og sagði Íslendinga eiga að taka mun ákveðnari afstöðu gegn Bretum. Þeir væru ekki vinir okkar í dag.

Vill niðurskurð í varnarmálum

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja að loftrýmiseftirlitið hefði lítinn tilgang og þeir sem til þekktu teldu enga hernaðarógn steðja að Íslandi. Þá benti hann á að með breyttum aðstæðum í þjóðarbúinu væri verið að endurskoða verkefni tengd varnarmálum og vildi hann endurskoða rekstur ratsjárkerfisins og Varnarmálastofnunar. Við yrðum að draga saman seglin og á þessum vettvangi væri það kjörið. Taldi hann það óviðunandi að þjóð sem beitti okkur hryðjuverkalögum kæmi hingað. Það vöknuðu líka spurningar um hvort við gætum yfirleitt verið í varnarbandalagi með slíkri þjóð.

Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði það ótrúlegan tvískinnung hjá Bretum að hafa beitt Ísland og íslensk fyrirtæki hryðjuverkalögum og ætla svo að koma og sinna loftrýmiseftirliti. Sagðist hann telja að Bretar ættu ekki að koma hingað og við ættum að ræða það við NATO því þetta væri verkefni á vegum þess.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar vöktu athygli á því að enginn fulltrúi Samfylkingarinnar hefðu tekið þátt í umræðunni og vakin var athygli á því að Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefði gengið úr þingsal þegar umræður hefðu staðið yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×