Erlent

Jafntefli í orrustum gærdagsins

Þau Barack Obama og Hillary Clinton fóru með sitthvorn sigurinn af hólmi eftir orrustur gærdagsins í forkosningunum í Bandaríkjunum.

Forkosningar fóru fram í Indiana og í Norður-Karólínu í gær en þetta voru síðustu stóru ríkin sem áttu eftir að kjósa. Hillary Clinton sigraði í Indíana með fimmtíu og eins prósenta mun og Barack Obama vann næsta örugglega í Norður-Karólínu og hlaut fimmtíu og sex prósent atkvæða. Stór sigur fyrir annan hvorn frambjóðandann var talinn geta gert út um kosningarnar en úrslit gærkvöldsins þýða að enn er ekki hægt að útnefna sigurvegara í baráttunni um forsetastólinn.

Þar sem svo mjótt var á mununum hefur staðan lítið breyst og því segja margir sérfræðingar að líkur aukist á því að Obama hreppi útnefninguna og verði næsti forsetaframbjóðandi demókrataflokksins. Hvorugur frambjóðandinn á nú möguleika að tryggja sér sigurinn án hjálpar frá svokölluðum ofurkjörmönnum sem eru óbundnir af niðurstöðum forkosninganna. Ofurkjörmennirnir eru 800 talsins og nú skiptir mestu máli fyrir Obama og Hillary að tryggja sér stuðning þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×