Innlent

Ríkisendurskoðandi hefur hafið úttekt á Suðurnesjalöggu

Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi.
Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi. MYND/GVA

Ríkisendurskoðandi hefur hafið stjórnsýsluúttekt sína á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og segir að reynt verði að flýta henni eins og kostur er.

Forsætisnefnd Alþingis fól Ríkisendurskoðu að gera úttektina og á hún að ná til síðustu sextán mánaða, eða frá þeim tíma þegar öll lögregla á Suðurnesjum og tollgæslan á Keflavíkurflugvelli voru sameinuð í eitt embætti auk þess sem öryggisgæsla fór undir sama hatt.

Deilur hafa verið um þau áform dómsmálaráðherra að stía í sundur lögreglu og tollgæslu þannig að fyrrnefnda embættið heyri undir dómsmálaráðuneytið en hið síðarnefnda undir fjármálaráðherra. Bæði lögreglumenn og tollgæslan á Suðurnesjum hafa mótmælt hugmyndunum og þá situr frumvarp fjármálaráðherra vegna málsins fast í þingflokki Samfylkingarinnar sem er ósáttur við breytingarnar. Fram hefur komið í fréttum að flokkurinn vilji bíða úttektar Ríkisendurskoðunar á embættinu áður en afstaða verði tekin til breytinga á embættinu.

Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi sagði í samtali við Vísi að stofnuninni hefði borist beiðni forsætisnefndar og vinna við úttektina væri hafin. Sigurður sagði aðspurður að hann gæti ekki sagt hvenær úttektinni lyki en reynt yrði að flýta henni eins og kostur væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×