Skoðun

Við treystum ykkur ekki

Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórnina var nýverið felld á Alþingi. Stjórnarliðar hristu hausinn yfir þessu áhlaupi minnihlutans, glottu út í annað og fóru svo heim og sofnuðu svefni hinna samviskulausu. En það kemur dagur eftir þennan dag.

Þrátt fyrir að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafi ákveðið að fella vantrausts­tillögu á sig sjálfa, stendur vantraust þjóðarinnar enn. Krafan er skýr: Við viljum fá að kjósa!

Það er ljóst að fólkið í landinu vill ríkisstjórnina burt og fá eitthvað að segja um eigin framtíð. Viku eftir viku hafa þúsundir höfuðborgarbúa á Austurvöll og heimtað að lýðræðið verði lífgað við. Fólk á landsbyggðinni kemur einnig saman og krefst þess sama, þrátt fyrir að þeirra egg drífi kannski síður að Alþingishúsinu. Morðingjar lýðræðisins skjóta hins vegar skollaeyrum við þessum kröfum, hagræða sér í valdastólunum og þegja þunnu hljóði. Sama hversu langt þau ganga í að niðurlægja, svívirða, ræna og rupla, kemur fólkið að luktum dyrum, líkt og því komi eigin framtíð ekki við. Reyni fólk að komast inn fyrir, í von um svör, er það jafnvel barið niður af skósveinum valdsins.

Ríkisstjórn sem ber virðingu fyrir fólkinu í landinu lokar ekki dyrunum og skellir í lás þegar krafist er svara. Hún hlustar á kröfur fólksins og skoðanir. Óttinn við valdamissi virðist vera það eina sem knýr óstjórn Geirs Hilmars áfram, þó að skýringarnar sem þjóðin fær séu aðrar. Heyrst hefur að það þyki til dæmis óheppilegt að kjósa á aðventunni. Ef svo er, þá er kominn tími til að forgangsraða og fresta bara jólunum fram yfir kosningar. Kjósum okkur nýja ríkisstjórn sem fyrst og jöplum síðan á kapítalistasvíninu og lepjum jólaöl, örlítið sáttari við lífið og tilveruna.

Höfundur er kjósandi.








Skoðun

Sjá meira


×