Innlent

Vonast eftir niðurstöðu vegna Laugavegshúsa síðar í dag

Borgin gæti þurft að greiða mörg hundruð milljónir fyrir húsin að Laugavegi 4 og 6. Viðræður borgaryfirvalda við núverandi eigendur eru þegar hafnar og vonast er til þess að niðurstöður liggi fyrir seinna í dag.

Borgarráð samþykkti í gær að hefja viðræður við eignarhaldsfélagið Kaupang, sem á húsin að Laugavegi 4 og 6, um möguleg kaup á húsunum. Er þetta í samræmi við málefnaskrá hins nýja borgarmeirihluta en markmiðið er að gera húsin upp í upprunalegri mynd. Upphaflega ætluðu eigendur húsanna að láta rífa þau og reisa hótel á staðnum.

Fyrrverandi meirihluti vildi bjarga húsunum með því að láta flytja þau, hugsanlega í Hljómskálagarðinn, en það ferli var hins vegar stöðvað þegar húsafriðunarnefnd beindi þeim tilmælum til menntamálaráðherra að húsin yrðu skyndifriðuð. Þau tilmæli eru nú komin á borð ráðherra sem tekur ákvörðun seinna í dag.

Jóhannes Sigurðsson hjá Kaupangi, staðfesti í samtali við fréttastofu í morgun að viðræður milli félagsins og borgarinnar um kaup á húsunum væru þegar hafnar. Taldi hann líklegt að niðurstöður myndu liggja fyrir seinna í dag. Hann vildi þó ekki ræða um hugsanlegt kaupverð en sagði ljóst að félagið hefði nú þegar eytt mörg hundruð milljónum króna vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni.

Samkvæmt vef Fasteignamats ríkisins er söluverðmæti húsanna metið á um 90 milljónir króna. Fastlega má gera ráð fyrir því að útlagður kostnaður Kaupangs leggist ofan á kaupverðið og gæti heildarkostnaður borgarinnar því numið mörg hundruð milljónum króna.

Hafa upphæðir á bilinu 300 til 600 milljónir verið nefndar í þessu samhengi. Er þá ekki talinn með sá kostnaður sem fer í það að gera húsin upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×