Erlent

Yfirvöld í Texas ekki með heimild til að taka börn sértrúarsafnaðar

Áfrýjunardómstóll í Texas hefur komist að þeirri niðurstöðu að dómsyfirvöld í ríkinu hafi ekki haft neinar heimildir til að taka meir en 440 börn sértrúarsafnaðar í vörslu sína.

Mál þetta vakti heimsathygli fyrr í ár en sértrúarsöfnuður þessi leggur stund á fjölkvæni og talið var að hluti barnanna hefðu verið kynferðislega misnotuð af eldri meðlimum safnaðarins. Þar að auki var algengt að táningsstúlkur undir lögaldri giftust sér mun eldri mönnum innan safnaðarins.

Var flestum barnanna komið fyrir á fósturheimilum eða í umsjá barnaverndarnefndar Texas. Áfrýjunardómstólinn komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að dómsyfirvöld hafi ekki getað sýnt fram á að börnin væru í bráðri hættu. Og það sé eini grundvöllur í lögum til þess að svipta foreldra umráðrétti yfir börnum sínum.

Með ákvörðun dómsstólsins er ljóst að yfirvöld verða að koma börnunum aftur í umsjá foreldra sinna en ekki liggur fyrir hvenær það verður gert. Í umfjöllun bandaríska fjölmiðla er niðurstaða dómsstólsins sögð vera auðmýkjandi ósigur fyrir dóms- og barnaverndaryfirvöld í Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×