Innlent

Anti-rasistar mótmæla meðferðinni á Ramses

Dane Magnússon, formaður Félags anti-rasista á Íslandi, skorar á stjórnvöld að snúa Keníamanninum Paul Ramses aftur til Íslands. Dane segist skammast sín í fyrsta skipti fyrir að vera íslendingur og neitar að hafa blóð manns á höndum sér.

Þetta kemur fram í bréfi sem hann sendi Vísi nú í morgun. Þar segir ennfremur:

„Mér finnst meðferðin á Paul Ramses og fjölskyldu hans alveg hrikaleg og ég skil ekki hvernig það fólk sem stendur á bak við þessar ákvarðanir í máli þeirra getur lifað með sjálfu sér og sofið á nóttunni.

Þetta virðist vera fullkomið tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld að snúa við blaði í málefnum hælisleitenda og sýna umburðarlyndi í verki. Í stað þess er kveðinn dauðadómur yfir manni með því að senda hann úr landi og skilja fjölskyldu hans eftir í óvissu. Ég sem íslendingur skammast mín nú í fyrsta sinn yfir þessum atburði og neita að hafa blóð manns á höndum mér.

Ég kynntist Paul lítillega fyrir skömmu og sá ekki betur en þar væri á ferð heiðarlegur rólyndismaður sem aðeins vill gera það besta sem hann getur fyrir fjölskyldu sína. Þau hjónin eiga nú son sem fæddur er á Íslandi og vilja eins og aðrir foreldrar skapa honum viðunandi lífsskilyrði.

Við höfum heyrt um þetta ákvæði í Dyflinarsamningnum sem íslensk stjórnvöld hafa nú kosið að nýta sér til að forðast að taka mál Ramses fjölskyldunnar til umfjöllunar. Okkar krafa er hinsvegar sú að íslensk stjórnvöld sjái að sér og nýti sér frekar þá heimild sem þau hafa til að taka málið til umfjöllunar hér á landi í stað þess að vísa því frá sér.

Sú ákvörðun að vísa Paul úr landi mun mjög líklega verða hans dauðadómur en enn er ekki um seinann að snúa málinu til betri vegar. Við íslenskir skattgreiðendur höfum enn tækifæri til að beita þrýstingi og leggja fram kröfu um að mál Paul Ramses verði tekið til umfjöllunar og að Ísland taki upp breytta stefnu í þessum málum.

Ég bendi á undirskriftalista sem í gangi eru á netinu og einnig á regluleg mótmæli sem munu vera kl. 12 á hádegi daglega út vikuna fyrir utan Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Ég hvet alla sem vilja breyta gangi mála og stuðla að því að Paul Ramses verði sendur aftur heim til fjölskyldu sinnar á Íslandi til að mæta og sýna stuðning í verki. Ég vil einnig skora á íslensk stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína og snúa Paul aftur til Íslands."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×