Erlent

Veður hamlar hjálparstarfi í Sichuan-héraði

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP/Xinhua

Stíf vindátt og skemmdir vegir hamla öllu hjálparstarfi í Sichuan-héraði í Kína sem varð illa úti í jarðskjálfta í gær. Nú eru um 10.000 manns taldir af og kínverska Xinhua-fréttastofan telur að sú tala eigi eftir að hækka enn frekar.

Björgunarsveitir komust nýlega til Wenchuan-sýslu sem er yfir skjálftamiðjunni. Um 1.950 eftirskjálftar hafa dunið á svæðinu, sumir nokkuð snarpir, og er nú unnið hörðum höndum að því að hreinsa vegi sem liggja til Wenchuan.

Herþyrlur sem sendar hafa verið til aðstoðar á skjálftasvæðinu hafa ekki enn getað lent vegna veðursins sem nú geisar en lágskýjað er og mikil rigning. Af sömu ástæðu neyddust fallhlífarhermenn kínverska alþýðuhersins til að hætta við fallhlífarstökk yfir svæðinu.

Kínverskar sjónvarpsstöðvar hafa sýnt myndir af sundurtættum þjóðvegum og stórgrýttum skriðum sem hrunið hafa úr fjallshlíðum.

Reuters greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×