Erlent

UNICEF laumaði gögnum til Búrma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/UNICEF

Í fréttatilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kemur fram að starfsmenn stofnunarinnar í birgðastöð hennar í Kaupmannahöfn hafi unnið baki brotnu um hvítasunnuna við að pakka neyðargögnum ætluðum fórnarlömbum náttúruhamfaranna í Búrma.

Segir svo frá því að gögnunum hafi verið laumað til Búrma fram hjá öllum flöskuhálsum og flutningshöftum stjórnvalda með því að skipta þeim upp í fjölda minni sendinga og koma þeim fyrir í asískum farþegaflutningavélum sem þegar hafi haft lendingarleyfi í Búrma.

Sendingin frá Kaupmannahöfn inniheldur meðal annars lyf, ýmiss konar útbúnað fyrir bráðabirgðasjúkrahús og smitvarnargrímur. Auk þess sem þegar hefur verið sent til Búrma var 40 tonnum af gögnum pakkað á hvítasunnudag og ein sending til lagði af stað frá París um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×