Erlent

Fjögur börn létust í árás Ísraela

Ísraelskir skriðdrekar nærri Gaza.
Ísraelskir skriðdrekar nærri Gaza. MYND/AP

Sjö Palestínumenn, þar á meðal móðir og fjögur börn hennar, létust í árásum Ísraelshers á Gazasvæðinu morgun. Konan og börnin létust þegar flugskeyti Ísraela hafnaði á húsi þeirra í Beit Hanoun.

Ísraelskir hermenn gerðu áhlaup á Beit Hanoun í morgun í þeirri von að hafa hendur í hári herskárra Palestínumanna. Eitt af flugskeytum hersins hafnaði hins vegar á húsi venjulegrar fjölskyldu sem sat við morgunverðarborðið að sögn vitna. Auk fjölskyldunnar særðust nokkrir í sprengingunni, sumir alvarlega.

Talskona Ísraelshers segir hermenn hafa ráðist gegn byssumönnum sem skotið hafi á hermennina. Hermennirnir fór inn í Beit Hanoun til þess að tryggja að herskáir Palestínumenn með sprengjuvörpur ásamt leyniskyttum héldu sig frá landamærum Gaza og Ísraels eins og það var orðað.

Yfir 400 Palestínumenn hafa látist á síðustu fimm mánuðum í aðgerðum Ísraela, þar af fjölmargir almennir borgarar. Síðast í gær lést 14 ára stúlka í átökum á milli ísraelskra hermanna og herskárra Palestínumanna nærri Beit Lahiya á Gaza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×