Erlent

Darling: Íslendingar verða að horfast í augu við vandann

Alistair Darling.
Alistair Darling.

Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, segir yfirlýsingar að vænta innan tíðar varðandi aðstoð til breskra sparifjáreigenda sem lögðu fé sitt inn í Landsbankann. Íslendingar verði hins vegar að horfast í augu við vandann sem þeir standa frammi fyrir.  Þetta kom fram á blaðamannafundi í Downing stræti í morgun þar sem Darling og Gordon Brown sátu fyrir svörum. Darling segir að í aðgerðunum felist að fá tryggingar fyrir eignum bankans í Bretlandi.

„Frekari yfirlýsinga er að vænta um Landsbankann eftir skamma stund varðandi aðgerðir sem við höfum tekið sem gera breskum fyrirtækjum kleift að starfa áfram. Við höfum gert þetta kleift með því að taka tryggingu í eignum Landsbankans hér í Bretlandi."

Darling bætti við: „Ég hitti íslenska fjármálaráðherrann í Washington síðdegis í gær og sagði honum að það væri ákaflega mikilvægt að þetta mál leystist eins fljótt og auðið er."

„Í síðustu viku, þegar ljóst var að Íslendingar ætluðu sér að skilja breska innistæðueigendur útundan í þeim aðgerðum sem þeir höfðu áformað, gripum við til aðgerða til þess að tryggja eignir bankans."

„Ég hef sagt að við viljum leysa þetta mál, en íslenska ríkisstjórnin verður að taka ákvörðun um að leysa sín eigin vandamál og þeir eru að velta því fyrir sér núna,"sagði Darling.

Hann bætti því við að íslenska ríkisstjórnin verði að átta sig á vandamálinu. „Þeir verða að átta sig á því að þeir eiga í verulegum vandræðum sem verða einungis leyst þeð því að fara út í mjög viðamiklar aðgerðir. Á meðan mun ég gera allt til þess að verja hag okkar," sagði Darling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×