Skoðun

TR og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn

Sigríður Lillý Baldursdóttir skrifar

Í greinaskrifum og fréttaflutningi af samskiptum Tryggingastofnunar og tilteknum sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum sem eru utan samninga við heilbrigðisyfirvöld hefur gætt nokkurs misskilnings sem mikilvægt er að leiðrétta.

Lögbundið hlutverk Tryggingastofnunar er að sjá um framkvæmd almannatrygginga.

Í þessu hlutverki felast m.a. endurgreiðslur til viðskiptavina vegna ákveðins læknis- og sjúkrakostnaðar og eftirlit með réttindum sjúkratryggðra.

Sá misskilningur hefur verið í umræðunni upp á síðkastið að Tryggingastofnun semji við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna þjónustu þeirra. Hið rétta er að samninganefnd heilbrigðisráðherra „...annast samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu og greiðsluþátttöku ríkisins vegna hennar fyrir hönd ráðherra samkvæmt nánari ákvörðun hans hverju sinni." (Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/1007 og lög um almannatryggingar nr. 100/2007).

Samninganefnd heilbrigðisráðherra semur við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðslur úr ríkissjóði fyrir þjónustu þeirra. Heilbrigðisráðherra setur reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt reglugerð nr. 1265/2007 er t.d. sjálfstætt starfandi sérfræðingum á samningi, heilsugæslustöðvum og sjúkrastofnunum óheimilt að innheimta hærri eða önnur gjöld af sjúkratryggðum en þar er kveðið á um. Hlutverk Tryggingastofnunar felst í að greiða umsamin gjöld fyrir þjónustu sérfræðinga sem eru á samningi að frádregnum greiðslum hins sjúkratryggða.

Um Tryggingastofnun fara miklir fjármunir ár hvert og starfsfólki stofnunarinnar er falið að standa vörð um hag allra þeirra sem njóta réttinda skv. almannatryggingalögum. Eftirlit með samningum þeim sem samninganefnd heilbrigðisráðherra hefur gert við heilbrigðisstarfsfólk snýst um að tryggja réttindi sjúkratryggðra hér á landi og sjá til þess að þeir njóti umsaminnar þjónustu.

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn sem ekki eru á samningi geta verðlagt þjónustu sína einhliða. Í nokkrum tilvikum hefur sjúkratryggðum viðskiptavinum þeirra verið tryggður réttur með reglugerðum til ákveðinnar endurgreiðslu að því marki sem reglugerðin (gjaldskrá ráðherra) segir til um. Verðleggi viðkomandi heilbrigðisstarfsmenn þjónustu sína hærra kemur það í hlut viðskiptavina þeirra að greiða mismuninn.

Þegar ekki takast samningar um þjónustu milli sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og samninganefndar heilbrigðisráðherra kostar það viðskiptavini meiri fyrirhöfn og oftast einnig aukin útgjöld. Jafnframt veldur það aukinni umsýslu hjá Tryggingastofnun. Tryggingastofnun hefur þó lagt áherslu á að bregðast við með aukinni þjónustu við viðskiptamenn þannig að óhagræði þeirra vegna skorts á samningi verði sem minnst.

Höfundur er forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins.




Skoðun

Sjá meira


×