Innlent

Fullt í allt sumar á hundahóteli

Nanna Hlín skrifar
Hundunum finnst gaman að leika sér saman á hótelinu.
Hundunum finnst gaman að leika sér saman á hótelinu.

Ekki eru það bara hótel okkar mannanna sem fyllast á sumrin hér á landi heldur eru hótel einnig vinsæl á meðal hunda. Hreiðar Karlsson hjá hundahótelinu að Leirum á Kjalarnesi segir að búið sé að vera full nýting hjá þeim í allt sumar og er uppbókað langt fram í ágúst.

„Við finnum ekki fyrir neinum samdrætti hjá okkur, fólk virðist vera að ferðast jafn mikið og áður, aðalbreytingin sem við finnum er að eftirspurning hefur aukist jafnt og þétt á veturnar." segir Hreiðar. Hann nefnir að þau hafi komið sér upp dágóðum hóp fastagesta, sem ætíð dilli skottinu þegar þau beygi inn í Mosfellsbæinn með eigendum sínum.

Alls eru fjörutíu hundaherbergi að Leirum og segir Hreiðar að oftast séu hundarnir frá nokkrum dögum upp í tvær, þrjár vikur á meðan eigendur þeirra fara í frí. Einnig eru sumir hundar hjá þeim til lengri tíma af margvíslegum ástæðum, til að mynda á meðan eigendur þeirra eru að byggja ný hús.

„Hundarnir eru allir með sérherbergi en þeim finnst náttúrulega skemmtilegast að vera úti með öðrum hundum. Þeir sem geta leikið sér saman fá að gera það en það er agljóslega ekki hægt að láta alla 30-40 hundana leika sér saman, þeir eru margir hverjir svo ólíkir," segir Hreiðar að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×