Innlent

Árásir á lögreglu grófari en áður

Lögreglumenn telja að árásum á sig hafi fjölgað og brotin orðið grófari en áður. Formaður Landssambands lögreglumanna óttast að aukið ofbeldi gegn lögreglunni tengist starfsemi alþjóðlegra glæpasamtaka hér á landi. Fimm Litháar voru í nótt handteknir eftir árás á lögregluþjón í heimahúsi.

Ráðist var á lögreglumann í nótt við heimahús í Kópavogi. Hann var ásamt félaga sínum kallaður þangað vegna hávaða. Þegar þeir reyndu að ræða við húsráðendur var ráðist á annan þeirra, hann skallaður, tekinn hálstaki og svo snúinn niður. Fjölmennt lögreglulið var kallað til aðstoðar og beitti það varnarúða og kylfum til að yfirbuga árásarmennina. Fimm voru handteknir. Sá sem fyrir árásinni varð slasaðist ekki alvarlega.

Lögreglumenn telja að árásum á sig hafi fjölgað undanfarið. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir brotin gegn þeim orðin grófari og meiri óvirðingu vera fyrir lögreglunni. Hann segir lögreglumenn sjá aukningu á ofbeldi útlendinga í sinn garð og þverrandi virðingu.

Snorri vill ekkert segja um þjóðerni þessara hópa. Árásarmennirnir í nótt voru samkvæmt heimildum fréttastofu Litháar en undanfarin misseri hafa fréttir af afbrotum Litháa nokkuð reglulega ratað í fjölmiðla.

Snorri segir ofbeldið grófara hjá þeim hópum útlendinga sem hann talar um. Hann bendir á að skýrslur hafi verið birtar um að erlend glæpasamtök teygji anga sína hingað til lands og óttast að aukið ofbeldið í garð lögrelgunnar tengist því.

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×