Innlent

Útsvar og fasteignaskattar ekki hækkaðir í Reykjavík

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 var lagt fram í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. Frumvarpið gerir ráð fyrir að álagningarhlutföll útsvars, fasteignaskatta, lóðarleigu og holræsagjalds verði ekki hækkuð. Hagrætt verður í stjórnsýslu borgarinnar og laun borgarfulltrúa og æðstu stjórnenda lækka um 10%. Afgreiðsla fjárhagsáætlunar fer fram á nýju ári.

,,Frumvarpið er lagt fram eftir samvinnu aðgerðarhóps borgarráðs sem skipaður er fulltrúum meirihluta og minnihluta á grundvelli aðgerðaáætlunar borgarstjórnar, sem samþykkt var einróma í borgarstjórn Reykjavíkur í byrjun október," segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Óbreytt útsvar

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að álagningarhlutföll útsvars sem er í dag 13,03%, fasteignaskatta, lóðarleigu og holræsagjalds verði ekki hækkuð. Gjalddögum fasteignagjalda verður fjölgað úr sex í níu í því skyni að dreifa greiðslubyrðum almennings og fyrirtækja.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur og heildargjöld að meðtöldum afskriftum muni nema 57,3 milljörðum króna. Áætlað er að heildareignir borgarinnar verði í árslok 2009 um 93,5 milljarðar króna og að eiginfjárhlutfall borgarinnar verði áfram sterkt eða 63%.

Hagrætt í stjórnsýslunni

,,Hagrætt verður verulega í stjórnsýslunni og alls staðar þar sem því er hægt að koma við. Búið er að draga saman kostnað um stórar fjárhæðir sem hlaupa á milljörðum og mæta þarf enn frekari hagræðingu upp á rúma tvo milljarða til viðbótar. Þetta er meðal annars gert með því að endurskoða öll rekstrarútgjöld, stórfelldu aðhaldi í innkaupum, endurskoðun samninga og með því að draga úr styrkveitingum," segir í tilkynningunni

Laun borgarfulltrúa lækka um 10%

Laun borgarfulltrúa og æðstu stjórnenda verða lækkuð um 10% og kostnaður vegna yfirvinnu verður endurskoðaður samhliða því sem dregið verður úr nýráðningum.








Tengdar fréttir

Vilja hærra útsvar í Reykjavík

Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna vill dreifa álagi og hækka útsvar í Reykjavík. Hámarksútsvar hefur verið 13,03% en Alþingi samþykkti á dögunum að heimila sveitarfélögum að hækka útsvar í 13,28%. Reyjavíkurborg hefur nýtt sér hámarksútsvar undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×