Erlent

Doha-viðræður út um þúfur

Viðræður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um afnám niðurgreiðslna og tolla á landbúnaðarvörur fóru út um þúfur í dag. Samningamenn telja að mörg ár geti liðið áður en þráðurinn verður tekinn upp aftur.

Saminganefndir um 150 ríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa reynt að ná samkomulagi í Genf í níu daga. Stofnað var til viðræðnanna árið 2001 í borginni Doha í Katar. Tilgangurinn var að ná samkomulagi greiðari aðgang að mörkuðum, meðal annars að minnka niðurgreiðslur og tolla á landbúnaðarvörur til hagsbóta fyrir þróunarríkin. Þau hafa lengi farið fram á aðgang á mörkuðum á Vesturlöndum fyrir landbúnaðarvörur sínar.

Lengi vel var útlit fyrir að samkomulag tækist og voru Bandaríkjamenn tilbúnir til að minnka niðurgreiðslur um þriðjung eða niður í rúma fjórtán milljarða dollara.

Evrópusambandsríkin og Bandaríkin deildu harkalega við Kínverja og Indverja um aðgengi að mörkuðum í þróunarríkjum. Kínverjar, Indverjar og Indónesar vildu vernda bændur sína með því að koma í veg fyrir að ódýrar landbúnaðarvörur flæddu inn á markaðinn. Ef samkomulag hefði tekist í Genf hefði það haft mikil áhrif innflutning á landbúnaðarvörum hingað til lands.

Beinn stuðningur hefði minnkað við bændur og Bændasamtök Íslands óttuðust að það myndi skaða íslenskan landbúnað. Sérfræðingar segja að það geti tekið nokkur ár að taka upp þráðinn í viðræðunum á ný.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×