Innlent

Fagnar reglugerð um lágmarksframfærslu

Þeir verst settu í hópi aldraðra og öryrkja eru í fyrsta skipti í þrettán ár komnir með hærri tekjur en þeir sem lægst hafa launin á almennum vinnumarkaði, eftir að félagsmálaráðherra undirritaði reglugerð sem hækkaði tekjur þessara hópa umtalsvert. Jákvætt skref, segir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Reglugerðin snýst um lágmarksframfærslu fyrir aldraða og öryrkja og tók gildi strax um síðustu mánaðamót. Þannig hækka þeir verst settu um allt að 16 þúsund krónur á mánuði. Þegar teknar eru saman ákvarðanir um kjarabætur til þessara hópa undanfarið þá hafa tekjur hinna verst settu hækkað um ríflega 19 prósent á níu mánuðum.

Eftir reglugerðarbreytinguna eru þeir verst settu með þriggja prósenta hærri tekjur en þeir sem lágmarkslaun hafa hjá ASÍ. Þá er nú tryggt að lágmarksframfærsla aldraðra og öryrkja skreppi ekki saman í verðbólgu því búið er að binda hana neysluvísitölu og ef verðbólgan hækkar þá hækkar framfærslan.

Eftir breytinguna verður einhleypum öryrkjum og eldri borgurum tryggð lágmarksframfærsla upp á 150 þúsund krónur með heimilisuppbót - í stað 137 þúsund áður. Lágmarksframfærslutrygging hjóna verður 256 þúsund. Þessi breyting snertir rúmlega 4000 einstaklinga í landinu. Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir breytinguna góða.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×