Innlent

Lafleur hálfnaður eftir tæpa tíu tíma á sundi

Benedikt á sundi fyrr í dag.
Benedikt á sundi fyrr í dag.

„Við erum komnir yfir miðlínu milli Englands og Frakklands núna. Veðrið er ekki eins gott og menn bjuggust við en skipstjórinn er að nýta sér föll og strauma sem fleyta okkur hraðar áfram," segir Guðni Haraldsson björgunarsveitarmaður sem staddur er á bát úti á miðju Ermasundi. Þar syndir Benedikt S. Lafleur svokallað ermasund en hann hefur verið í tæpa tíu tíma á sundi nú.

„Hann hefur það nokkuð gott og er mjög einbeittur og ákveðinn," segir Guðni aðspurður um líðan Benedikts.

Er hann orðinn þreyttur?

„Eftir níu og hálfan tíma? Jú, hann er aðeins farinn að blása úr nös," segir Guðni en það er aðallega undiraldan sem er að gera þeim lífið leitt núna.

Hvenær komið þið í land?

„Ég væri nú góður ef ég gæti svarað því. En eins og skipstjórinn setur þetta upp þá skiptir á falli núna klukkan 19:00 á íslenskum tíma og þá verður þetta ekki eins óhagstætt. Þá fáum við ölduna og vindinn í bakið, en það er ómögulegt að segja með restina."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×