Innlent

MS sjúklingur fær ekki kraftaverkalyf sökum sumarleyfa

Guðrún Sigríður Einarsdóttir er með MS sjúkdóminn en fær ekki hið byltingarkennda Tysabri lyf sökum sumarleyfa á Landspítalanum. Hún segir hvert kast skilja eftir sig skemmdir og fötlunin aukist.

"Ég er ennþá að bíða. Og biðin er löng og mjög erfið," sagði Guðrún Sigríður, sem þurfti að hætta kennslu fyrir um ellefu árum síðan þegar hún greindist með MS sjúkdóminn, á Stöð 2 í kvöld.

"Ég lendi í sífelldum köstum. Hvert einasta kast skilur eftir sig skemmdir og fötlunin verður alltaf meiri og meiri. Líðanin verður alltaf verri og verri."

Stöð 2 hefur greint frá ótrúlegum árangri sem nýtt taugalyf Tysabri getur haft á MS sjúklinga. Í fréttum í kvöld var einnig rætt við Svanfríði Kjartansdóttur sem greindist árið 1992 með MS-sjúkdóminn og sá ekki framför fyrr en hún var sett á lyfið.

"Daginn eftir fann ég strax mun. Ég var í meira jafnvægi og þegar ég fór í sturtu um morguninn þurfti ég ekki að kalla á hjálp," sagði hún.

Nóg er til af Tysabri á Landspítalanum en tugir MS-sjúklinga eru á biðlista eftir að hefja lyfjagjöf vegna þess að ekki er fjármagn eða mannskapur til að gefa lyfið nema einn dag í viku. Og nú er sjúklingum tjáð að sumarleyfi aftri því að þeir fái kraftaverkalyfið í æð.

"Lyfin eru til og við erum tilbúin að taka á móti þeim," sagði Guðrún Sigríður. "Það vantar bara aðstöðu svo fleiri komist að."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×