Innlent

Ella Dís er með sjálfsofnæmi

Læknar í Lundúnum komust nýlega að því að tveggja ára íslensk stúlka, sem talin var glíma við hrörnunarsjúkdóm, hafi verið með sjálfsofnæmi sem orsakaði hrörnun vöðvanna. Stúlkan var búin að missa nær allan líkamsmátt en getur nú í fyrsta sinn í margar vikur haldið höfði.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísir.is hafa fylgst náið með baráttu Ellu Dísar Laurens undanfarna mánuði. Í haust missti hún máttinn smám saman og á rúmlega hálfu ári hrakaði henni verulega með þeim afleiðingum að hún gat hvorki gengið né haldið höfði. Í fyrstu var talið að hún væri með ólæknandi hrörnunarsjúkdóm. Ella Dís hefur verið alvarlega veik síðustu daga og vikur. Hún er nýkomin frá Lundúnum þar sem hún gekkst undir erfiða og viðamikila rannsókn sem leiddi allt annað í ljós.

Mæðgurnar komu heim fyrir skömmu og hafa dvalið á Barnaspítala hringsins. Með hjálp viðeigandi lyfja hefur Ellu Dís farið verulega fram. Ella Dís er einnig farin að drekka jógúrt sjálf sem hún gat ekki áður. Hún hefur fengið aukinn mátt í hendurnar að nýju og getur því haldið lengur á leikföngum og öðrum hlutum.

Ragna hugðist fara með Ellu Dís til Kína í lok sumars þar sem hún átti að gangast undir stofnfrumumeðferð. Sú ferð er nú úr sögunni. Óljóst er hvort Ella Dís nái sér að fullu en ef fram fer sem horfir gæti hún með réttri lyfjagjöf öðlast meiri mátt með tímanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×