Skoðun

Vandi RÚV og svikararnir

Höskuldur Þórhallsson skrifar

Í grein Þorgríms Gestssonar, formanns Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins, sem birtist í Fréttablaðinu sl. mánudag, fullyrðir greinarhöfundur að breytingin sem gerð var á rekstrarformi Ríkisútvarpsins í tíð síðustu ríkisstjórnar sé grundvöllurinn að þeim vanda sem nú blasir við útvarpinu. Á það hafi hollvinir RÚV bent á sínum tíma.

Menn geta út af fyrir sig deilt um hvaða form sé best úr garði gert til að reka útvarpsstöðvar. Hitt er það að ef stjórnvöld tryggja ekki nægt fjármagn til rekstursins er stöðin dæmd til að sinna hlutverki sínu illa. Uppsagnir og niðurskurður fylgja óhjákvæmilega í kjölfarið og skiptir þá engu hvert rekstrarformið er.

Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð staðið vörð um Ríkisútvarpið og gerir enn. Þannig var ætíð reynt að sjá til þess á meðan flokkurinn sat í ríkisstjórn að nægt fjármagn rynni til útvarpsins til að tryggja að það gæti sinnt hlutverki sínu. Það er á engan hátt hægt að ætlast til þess að flokkurinn hafi átt að sjá það fyrir að fögur fyrirheit sjálfstæðismanna um að styrkja RÚV yrðu svikin u.þ.b. ári eftir að ný ríkisstjórn var mynduð. Þá hefði nú mátt gera þá kröfu til Samfylkingarinnar sem barðist gegn hlutafélagavæðingunni fyrir rúmu ári síðan að hún hefði töggur í sér til að berjast gegn eyðileggingu útvarpsins.

Hvernig sem á málið er litið felast svikin í því að núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur snúið baki við öllum loforðum um að efla RÚV og að tryggja rekstrargrundvöll stöðvarinnar.

Um Ríkisútvarpið þarf að standa áfram vörð. Tryggja þarf að hlutverki útvarpsins við að tengja saman byggðarlög um land allt og þannig sameina þjóðina verði við haldið um ókomna tíð. Sjálfstætt og óháð almanna Ríkisútvarp er ekki bara nauðsynlegt í menningarlegu og lýðræðislegu tilliti heldur einnig mikilvægt öryggistæki fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Um það veit ég að við Þorgrímur erum sammála.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×