Innlent

Prestabíll í ljósum logum - myndband

Þrír pólskir prestar og biskup voru hætt komnir þegar bíll þeirra fór út af í Vatnsdal í dag og varð alelda á skömmum tíma. Þrír þeirra voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri en eru ekki alvarlega slasaðir.

Lögreglan á Blönduósi fékk tilkynningu um slysið skömmu eftir hádegi. Þegar hún kom á staðinn voru mennirnir fjórir allir komnir út úr bílnum en eldur logaði í vél bílsins. Skömmu síðar var bílinn orðinn alelda. Þegar slökkviliðið kom á staðinn skíðlogaði í bílnum og svartan reyk lagði frá honum.

Mennirnir sem eru á sextugs og sjötugsaldri komu hingað til lands fyrir nokkrum dögum til að ferðast um landið og skoða sig um. Þeir voru á leiðinni á Akureyri þegar slysið varð. Þeir eru allir pólskir og er einn þeirra biskup hjá kaþólsku kirkjunni en hinir þrír prestar og fengu þeir bílinn lánaðan hjá kaþólskum presti sem býr hér á landi.

Slysið varð skammt frá bænum Sveinsstöðum í Vatnsdal. Svo virðist sem þeir hafi misst stjórn á bílnum þegar þeir voru að koma úr beygju, misst bílinn út af og ekið niður brekku þar sem bíllinn stöðvaðist.

Mennirnir voru fyrst fluttir á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi til aðhlynningar en þaðan voru þrír þeirra fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri til frekari skoðunar. Meiðsl þeirra eru ekki talin alvarleg en einhverjir þeirra beinbrotnuðu og fengu skurði.

Lögreglan á Blönduósi rannsakar tildrög slysins en bílinn er gjörónýtur.

Ótrúlegar myndar af slysinu má sjá með frétt Stöðvar 2 hér fyrir ofan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×