Innlent

Elliheimilið Grund braut persónuverndarlög

SB skrifar
Elliheimilið Grund.
Elliheimilið Grund.

Söfnun upplýsinga um fjarvistir ungrar starfsstúlku hjá elliheimilinu Grund í gagnagrunn Heilsuverndarstöðvarinnar var óheimil. Heilsuverndarstöðin (Inpro) hefur eytt upplýsingum um stúlku, sem vann hjá elliheimilinu Grund, úr gagnagrunni sínum.

Framvegis munu starfsmenn Grundar undirrita sérstakan samning um að þeir leyfi Heilsuverndarstöðinni að safna saman upplýsingum um fjarvistir þeirra í gagnagrunn.

Stúlkan, sem er ung að aldri, átti við veikindi að stríða og var skilt að tilkynna um þau. Hún vissi hins vegar ekki að upplýsingarnar fóru í gagnagrunn hjá Heilsuverndarstöðinni vegna samnings milli Grundar og Heilsuverndarstöðvarinnar.

Samningurinn gengur út á það að í stað læknisivottorða fara heilsufarsupplýsingar um starfsmenn Grundar til Heilsuverndarstöðina. Í svari lögfræðings Heilsuverndarstöðvarinnar kemur fram að:

"...fullur trúnaðir ríkir ætíð í meðferð upplýsinga hjá InPro - allt starfsfólk sem vinnur við skráningu og meðhöndlun gagna eru heilbrigðisstarfsmenn sem hafa undirgengist faglega trúnaðareiða [...] því er eðli þeirra gagna sem safnað er sambærilegt við sjúkraskrár."

Stúlkan kærði hins vegar söfnun persónuupplýsinganna og Persónuvernd taldi málið falla undir valdsvið sitt. Í niðurstöðu Persónuverndar segir að upplýsingagjöf hafi skort "...einkum vegna ungs aldurs stúlkunnar þegar hún réð sig til starfa hjá Grund og í ljósi viðkvæms eðlis umræddra upplýsinga."

Því fellst Persónuvernd ekki á að Grund hafi veitt stúlkunni nægilega fræðslu og upplýsingar um söfnun persónuupplýsinga um hana og því hafi vinnsla upplýsinga um fjarvistir hennar úr vinnu verið óheimil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×