Innlent

Lögfræðingur segir alvarlega brotið á Ramses

Nanna Hlín skrifar
Katrín Theódórsdóttir, lögfræðingur Paul Ramses
Katrín Theódórsdóttir, lögfræðingur Paul Ramses

Katrín Theódórsdóttir, lögfræðingur Pauls Ramses, ætlar að krefjast þess að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli Paul Ramses verði ógild. Hún vill nýja meðferð á málinu á grundvelli þess að ekki hafi verið rétt staðið að ákvörðuninni. Þetta mun hún leggja fram í kæru til dómsmálaráðuneytisins í dag eða á morgun.

,,Alvarlegasta brotið tel ég að ákvörðunin hafi ekki verið birt honum þegar hún lá fyrir eins og lög gera ráð fyrir," segir Katrín. ,,Með því var komið í veg fyrir að honum tækist að verjast ákvörðuninni en það er vissulega brot á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar," segir Katrín.

Þessa kæru hefði verið hægt að leggja fram fyrir þremur mánuðum ef Ramses hefði verið birt ákvörðunin á réttum tíma samkvæmt upplýsingum frá Katrínu. Þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir að honum hefði verið vísað úr landi.

,,Ég fékk aldrei neina vitneskju um að það væri búið að taka ákvörðun í máli Paul Ramses frá Útlendingastofnun. Ég krafðist þess með bréfi þann 14. mars að það yrði fjallað um málið hans á Íslandi. Það var það fyrsta sem ég gerði eftir að Paul Ramses kom til mín vegna þess að ég vissi að Dyflinnarsamningurinn yrði til skoðunar," segir Katrín.

Að hennar sögn fékk hún ekkert svar við því bréfi og vissi ekkert af ákvörðun stjórnvalda fyrr en Ramses hringdi í hana nokkrum klukkutímum áður en honum var vísað úr landi.

 
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×