Innlent

Kræklinganefnd vil samráðshóp um kræklingarækt

Nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra sem falið var að kanna stöðu og möguleika kærklingaræktar á Íslandi leggur til að stofnaður verði samráðshópur um málið með fulltrúum ráðuneytisins, Matvælastofnunar, Matís, Hafrannsóknastofnunarinnar og Skelræktar. Hlutverk hans verði að samþætta starf ríkisstofnanna og koma með tillögur til ráðherra um ræktunarsvæði þar sem hægt væri að gera rannsóknir með fjármagni úr ríkissjóði.

Tillögur nefndarinnar voru kynntar í dag. Þær gera einnig ráð fyrir að samhliða heilnæmiskönnun ræktunarsvæða verði lagt mat á tíðni eitraðra svifþörunga á svæðunum. Enn fremur er lagt til að mælingar á þörungaeitri og kadmíum í uppskeru verði fjármagnaðar úr ríkissjóði fyrst um sinn. Aflað verði frekari upplýsinga um uppruna og náttúrulegan breytileika í styrk kadmíums í kræklingi hér við land.

Þá vill kræklinganefndin aðlaga ræktunartækni að hverju svæði fyrir sig. „Mikilvægt er að hægt verði að sækja um styrki í opinbera sjóði í þessu skyni," segir enn fremur í skýrslu nefndarinnar. Þá leggur hún til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið veiti fjármagn til að könnuð verði hagkvæmni mismunandi flutningsleiða fyrir ferskan krækling á Evrópumarkað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×