Innlent

Sýna ljósmæðrum samstöðu við Stjórnarráðið

Talið er að um 50 manns séu saman komnir við Stjórnarrráðið við Lækjargötu. Þar er ætlunin að sýna Ljósmæðrafélagi Íslands samstöðu í samningaviðræðum við ríkið þegar ráðherrar mæta á ríkisstjórnarfund nú klukkan hálftíu.

Ljósmæðrafélagið ákvað að skrifa ekki undir samning sem Bandalag háskólamanna gerði við ríkið á dögunum og var það vegna þess að samninganefnd ríkisins hafði ekki á neinn hátt komið til móts við kröfur ljósmæðra eftir því sem þær segja.

Þær vilja að nám þeirra verði metið til jafns við aðrar stéttir með sambærileg laun. Fregnir hafa borist af því að hátt í hundrað ljósmæður hafi sagt upp störfum til að mótmæla kjörum sínum en fram kom í fréttum Stöðvar 2 á dögunum að lögfræðingar og verkfræðingar starfandi hjá hinu opinbera, með fimm ára háskólanám að baki, eru með að minnsta kosti hundrað þúsund krónum hærri laun en ljósmæður með sex ára háskólanám.







Frá samstöðunni í morgun.MYND/Höskuldur Kári

í áskorun sem afhent var forsætisráðherra við Stjórnarráðið í morgun kemur fram að kröfur ljósmæðra séu í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en í kaflanum um jafnrétti í reynd segi að endurmeta beri sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur séu í miklum meirihluta.

„Ljósmæður eru eingöngu konur og þær þjónusta eingöngu konur. Ríkisstjórn sem stefnir að jafnrétti í reynd getur ekki virt þarfir og störf kvenna að vettugi, heldur verður hún að beita sér í þágu stéttarinnar og fæðandi kvenna.

Störf ljósmæðra eru ómetanleg. Þær styðja og þjónusta konur og börn þeirra á mikilvægustu augnablikum lífsins. Vísindin segja okkur í dag að tímabilið frá getnaði og út fyrsta lifiár einstaklings, er það mest heilsumótandi á ævinni. Hérlendis er eftirlit á meðgöngu, fæðingarhjálp og ungbarnavernd, nær eingöngu í næmum höndum ljósmæðra. Það er því ljóst að ljósmæður gegna lykilhlutverki í heilsueflingu þjóðarinnar og er allra hagur að svo verði áfram.

Stuðningsfólk ljósmæðra skorar hér með á ríkisstjórnina að verða við kröfum ljósmæðra um að veita samninganefnd ríkisins umboð til að leiðrétta laun þeirra til samræmis við aðrar háskólastéttir með sambærilega menntun. Þannig getur hún stuðlað að jafnrétti í reynd og tryggt öryggi og líðan kvenna og barna um ókomin ár,“ segir í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×