Innlent

Vonar að ráðamenn viðurkenni mistök í máli Ramses

Eldur Ísidór Kristinsson
Eldur Ísidór Kristinsson

Eldur Ísidór Kristinsson stofnaði Facebook-hópinn Útlendingastofnun: Sækið Paul Ramses og virðið mannréttindi fólks! síðastliðinn fimmtudag þegar nýbúið var að vísa Ramses úr landi. ,,Ástæðan fyrir því að ég stofnaði hópinn var sú að mér fannst skrýtið að honum einum gæti verið vísað úr landi þegar hann á konu og barn hér," segir Eldur.

Eldi finnst íslensk stjórnvöld hafa staðið illa að máli Ramses og nefnir að ríkisstjórnarflokkarnir tveir virðast ósammála í afstöðu sinni til málsins.

,,Ég vona að hann verði ekki fórnalamb þess að það sé erfitt fyrir suma að viðurkenna mistök í starfi," segir Eldur. Hann bendir á að það sé furðulega auðvelt að veita handboltamönnum ríkisborgararétt á meðan flóttamenn sem ekki eru öruggir í heimalandi sínu er vísað úr landi.

,,Ég hef búið erlendis lengi og hef alltaf geta státað mig af því að Íslendingar væru svo góðir en ég skammast mín núna" segir Eldur. Hann taldi ekki annað hægt en að sækja Paul Ramses til Ítalíu þar sem vafi léki á því hvort mál hann hefði fengið sanngjarna meðferð.

Eldur sagðist hafa fengið sterk viðbrögð frá fólki á Facebook um málið. ,,Ég átti ekki von á að Facebook-grúppan myndi tútna svona út," segir Eldur en skilaboðum og vinabeiðnum hefur rignt yfir hann á Facebook.

,,Ég hef verið að reyna að halda málinu innanlands svo það hafi meira áhrif, það hefur ekki sömu áhrif ef það eru 200 þúsund útlendingar sem vita ekkert um málið í hópnum," segir Eldur.

,,Það eru 4700 manns sem hafa verið boðið í hópinn en hafa ekki svarað enn. Ég hvet þá til þess að kíkja á Facebook síðuna sína og ganga í hópinn," sagði Eldur að lokum.

 

 

 

 

 

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×