Innlent

Jóna Kristín verður bæjarstjóri

SB skrifar
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir - næsti bæjarstjóri Grindavíkur.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir - næsti bæjarstjóri Grindavíkur.

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, verður bæjarstjóri í Grindavík í nýjum meirihluta Samfylkingar- og Framsóknarflokks. Þetta staðfestir Hallgrímur Bogason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

"Jú, ég get staðfest að við erum að fara í meirihlutasamstarf með Samfylkingunni," segir Hallgrímur Bogason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem er nú staddur í Serbíu. Spurður hver verði bæjarstjóri í hinum nýja meirihluta svarar Hallgrímur:

"Það eru allar líkur á að Jóna Kristín verði bæjarstjóri."

Hallgrímur segist hæstánægður með hið breytta landslag í bæjarpólitíkinni í Grindavík. "Ég er mjög ánægður með niðurstöðuna. Það er ekki langt á milli skoðana þessara flokka og því mjög auðvelt fyrir okkur að fara í samstarf."

Hann segir að fyrri meirihlutinn hafi fallið vegna langvarandi óánægja. Það hafi alltaf verið langt á milli þeirra og samstarfið gengið erfiðlega.

"Ætli þetta verði ekki allt tilkynnt formlega á morgunn," sagði bæjarfulltrúinn káti í sólinni í Serbíu og bætti við: "Yndislegt land og yndislegur dagur" - enda ekki á hverjum degi sem meirihlutar springa.










Tengdar fréttir

Meirihlutinn í Grindavík sprunginn

Bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í Grindavík er sprunginn. Þetta kemur fram á fréttavefnum dv.is. Þar er haft eftir Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur, forseta bæjarstjórnar og oddvita Samfylkingarinnar í Grindavík að hún hafi rætt við Sjálfstæðisflokkinn og lýst því yfir að hún vilji slíta samstarfinu.

Rýtingsstunga í bak Sjálfstæðismanna

Sigmar Eðvarðsson, formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar, segir meirihlutaslit Jónu Krístínar Þorvaldsdóttur, oddvita Samfylkingarinnar, rýtingsstungu í bak Sjálfstæðismanna. Hann fréttir af stjórnarslitunum í fjölmiðlum nú í kvöld




Fleiri fréttir

Sjá meira


×