Innlent

Kjartan ekki hættur við Bitruvirkjun

Miklar framkvæmdir eru þegar í gangi á Hellisheiði sem skila 270 megavöttum þegar þeim hefur verið lokið.
Miklar framkvæmdir eru þegar í gangi á Hellisheiði sem skila 270 megavöttum þegar þeim hefur verið lokið. Fréttablaðið/GVA

„Ekki hefur verið hætt við Bitruvirkjun heldur undirbúningi hætt meðan málið er skoðað betur,“ segir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti á fundi sínum í maí að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og fresta frekari framkvæmdum á svæðinu. Borgarstjóri óskaði borgarbúum þá til hamingju með að Bitruvirkjun hefði verið slegin af. Kjartan sagði við það tilefni að rétt hefði verið hjá borgarstjóra að þessar framkvæmdir hefðu verið slegnar af, hvað sem yrði í framtíðinni. Nú segir Kjartan alls ekki fallið frá öllum áformum um virkjunina.

„Við brugðumst við mjög eindregnu áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og samþykktum því að fresta framkvæmdum.“ Hann segir spurningar um, hvort hlutverk Skipulagsstofnunar sé að taka afstöðu gegn virkjunum eins og þar var gert, hafi komið fram í kjölfarið og verði skoðaðar.

„Ákvarðanir um framhald verkefnisins verða teknar í samráði við eigendasveitarfélög Orkuveitunnar og sveitarfélagið Ölfus sem stýrir skipulagi svæðisins.“ Kjartan bendir einnig á að þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að doka við með Bitruvirkjun sé unnið að miklum framkvæmdum á Hellisheiði.

Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, gagnrýna í Markaðnum í gær að meirihlutinn í borginni virðist hafa tekið Bitruvirkjun út af borðinu. Bjarni kveðst telja menn þar hafa hlaupið á sig.

„Ég trúi því að áður en mjög langt um líður muni menn átta sig á því og vinda ofan af þeirri ákvörðun og taka aftur til við virkjanir á Hellisheiðinni,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×