Innlent

Áfram unnið með verðlaunatillögu að listaháskóla

Áfram verður unnið með verðlaunatillögu +Arkitekta að nýbyggingu Listaháskóla Íslands á Frakkastígsreit með tilliti til sjónarmiða skipulagsyfirvalda og þarfa skólans.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samson Poperties sem í dag átti fund með formanni skipulagsráðs, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og fulltrúum LHÍ. Eins og fram hefur komið hefur Ólafur F. Magnússon borgarstjóri verið andsnúinn tillögunni og þá hefur Hanna Birna einnig lýst yfir efasemdum um tillögurnar.

 

Boðað var til fundarins vegna þessa og var niðurstaða hans sem fyrr segir að vinna tillöguna áfram með tilliti til sjónarmiða skipulagsyfirvalda og þarfa skólans. ,,Aðstandendur samkeppninnar lýsa ánægju með fundinn og telja að nú geti hafist sú faglega og málefnalega umfjöllun sem skólinn hefur hefur óskað eftir um hina glæsilegu verðlaunatillögu," segir í tilkynningu Samson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×