Innlent

Hitaveitureikningurinn hækkar

MYND/Róbert

Viðskiptavinir Orkuveitunnar geta átt von á því að reikningur vegna heitavatnsins hækki um 300 krónur að meðaltali um næstu mánaðamót.

Stjórn Orkuveitunnar ákvað á fundi sínum á föstudag að hækka gjaldskrá um tæp tíu prósent og hefur iðnaðarráðherra staðfest þá hækkun. Þetta þýðir samkvæmt Orkuveitunni að hitareikningur meðalíbúðarinnar hækkar um 300 krónur. Hækkun kostnaðar og fjárfesting í nýrri hitaveitu frá Hellisheiði eru ástæður hækkunarinnar.

Orkuveitan segir enn fremur í tilkynningu að gjaldskrárbreytingin sé sú fyrsta í þrjú ár en á þeim tíma hafi byggingarvísitala hækkað um 41 prósent og vísitala neysluverðs um 29 prósent. Hver rúmmetri af heitu vatni hækkar úr 65,23 krónum í 71,56 krónur án virðisaukaskatts.

„Byggingavísitalan lýsir ágætlega kostnaðarþróun hitaveitna svo sem vegna verklegra framkvæmda og innkaupa - innlendra sem erlendra. Orkuveitu Reykjavíkur hefur tekist að hagræða í rekstri sínum á síðustu árum svo að ekki kemur til meiri hækkunar nú. Hækkunin er þriðjungur af hækkun vísitölu neysluverðs frá síðustu gjaldskrárbreytingu og um fjórðungur af hækkun vístölu byggingarkostnaðar," segir í tilkynningunni.

Orkuveitan segir enn fremur að varmastöð Hellisheiðarvirkjunar verði tekin í gagnið á næsta ári og að hún muni sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni allt fram til ársins 2030. Heildarkostnaður við hana sé 13 milljarðar en auk þessarar fjárfestingar standa yfir umfangsmiklar umbætur á dreifikerfum hitaveitu, sérstaklega í Hafnarfirði og á Vesturlandi. „Þróun kostnaðar- og gengisvísitalna á næstu misserum mun því ráða því hvort frekari breytinga á heitavatnsverðinu verður þörf," segir í tilkynningu Orkuveitunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×