Innlent

VG: Hreinusnarátak farið úr böndunum

Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi VG.
Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi VG.

Vinstri grænir í Reykjavík telja brýnt að borgaryfirvöld gæti meðalhófs í hreinsunaraðgerðum sínum í miðborginni. Fulltrúi flokksins lagði fram bókun á fundi borgarráðs í morgun þar sem segir að svo virðist sem að hreinsunarátak borgarinnar hafi farið úr böndunum og máling þeki nú áratugagömul listaverk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sóleyju Tómasdóttur, varaborgarfulltrúa VG.

Bókun VG frá fundi borgarráðs:

Það hlýtur að vera kappsmál allra borgarbúa að Reykjavík sé hrein og fögur borg. Hreinsunarátak er því af hinu góða, en öllu má of gera. Átak það sem kennt hefur verið við miðborgina nú á vormánuðum virðist hafa farið úr böndunum, þar sem grá málning þekur nú áratugagömul listaverk sem ekki verða aftur fengin. Hafi þær svipmótsbreytingar sem um ræðir talist byggingarleyfisskyldar hlýtur að hafa verið um hefðbundnar óleyfisframkvæmdir að ræða sem ber að meðhöndla sem slíkar. Ekki er vitað til þess að borgaryfirvöld ráðist í breytingar á óleyfisframkvæmdum- öðrum en þessum - án formlegs samþykkis sveitarstjórnar eða samráðs við eigendur skv. byggingareglugerð. Brýnt er að borgaryfirvöld gæti ávallt meðalhófs í aðgerðum sínum sem og andmælaréttar viðkomandi húseigenda sem ella gætu óskað bóta úr hendi borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×