Erlent

Karzai gagnrýnir Bandaríkjamenn og Breta

Hamid Karzai, forseti Afganistans, er harðorður í garð Bandaríkjamanna og Breta í viðtali sem bandaríska blaðið New York Times birtir í dag. Hann gagnrýnir stríðsrekstur ríkjanna í Afganistan.

Hann vill að Bandaríkjamenn hætti að handtaka grunaða Talíbana og stuðningsmenn þeirra. Þeir gefi sig ekki fram sjálfviljugir og afhendi ekki vopn sín af ótta við að verða handteknir og síðan pyndaðir.

Forsetakosningar verða í Afganistan á næsta ári og Karzai að hefja baráttu sína um endurkjör. Hann vill að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í Afganistan grípi til aðgerða svo draga megi enn frekar úr mannfalli meðal almennra borgara.

Hann telur að ekki eigi að heyja stríð gegn hryðjuverkamönnum í afgönskum þorpum. Frekar eigi að ráðast á griðarstaði Talíbana og liðsmanna al Kaída í Pakistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×