Innlent

Alikálfi ekki slátrað þótt Ólafur gangi í flokkinn

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Jón Magnússon.
Jón Magnússon.

Jón Magnússon, formaður Frjálslynda flokksins í Reykjavík, segir að innganga Ólafs F. Magnússonar í Frjálslynda flokkinn verði ekki meðhöndluð með neinum öðrum hætti en venjulega. „Af hverju ætti svo að vera? Maðurinn studdi ekki flokkinn við síðustu kosningar og hefur ekki gert það hingað til," útskýrir Jón.

Ólafur gekk úr Sjálfstæðisflokknum árið 2001 og ári seinna bauð hann fram í borginni undir merkjum Frjálslyndra og óháðra (F-listi). Nú stígur Ólafur skrefið til fulls en í dag tilkynnti hann á blaðamannafundi að hann hygðist ganga í Frjálslynda flokkinn og bjóða fram undir merkjum hans í næstu kosningum.

„Þegar glataði sonurinn kom heim, þá var slátrað alikálfi, en ég sé ekki nokkra ástæðu til að slátra alikálfi yfir þessum fregnum," segir Jón.

Jón telur það gjörsamlega fráleitt ef Ólafur ætlast til þess að geta gengið inn í flokkinn og sjálfkrafa leitt hann í næstu borgarstjórnarkosningum. Jón undrast framgöngu Ólafs. „Er þetta ekki bara í samræmi við manninn yfir höfuð?" spyr Jón og hlær.








Tengdar fréttir

Ólafur til liðs við frjálslynda - niðurskurður í vændum hjá borginni

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri boðaði til blaðamannafundar klukkan 11:00 í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Þar tilkynnti Ólafur að hann hygðist ganga í Frjálslynda flokkinn og bjóða fram undir merkjum hans í næstu kosningum. Ólafur sagðist hafa rætt við Guðjón Arnar Kristjánsson formann flokksins sem styður ákvörðun Ólafs. Á fundinum vitnaði Ólafur einnig í minnisblað sem samið var á fjármálaskrifstofu borgarinnar en þar er gert ráð fyrir því að launakostnaður borgarinnar verði minnkaður um átta prósent auk þess sem dregið verði úr yfirvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×