Erlent

Mjólkurhristingsmorðinginn fær ekki að áfrýja

Nancy Kissel.
Nancy Kissel. MYND/AP

Mjólkurhristingsmorðinginn svokallaði fær ekki að áfrýja máli sínu til æðra dómstigs í Hong Kong.

Nancy Kissel er 44 ára gömul húsmóðir frá Minnesota í Bandaríkjunum sem hlaut lífstíðardóm í Hong Kong árið 2003 fyrir að byrla eiginmanni sínum ólyfjan í mjólkurhristingi og berja hann svo til bana með styttu.

Dómstóll í Hong Kong úrskurðaði í morgun að dómnum yrði ekki áfrýjað en Kissel getur borið þann úrskurð undir áfrýjunardómstól sem er fullnaðarúrskurðaraðili í málinu. Morðið vakti verðskuldaða athygli á sínum tíma og sýnist sitt hverjum, ýmist er litið á Kissel sem kaldrifjað morðkvendi sem bruggað hafi eiginmanni sínum launráð eða kúgaða eiginkonu sem sætt hafi ofbeldi á heimili sínu.

Sjálf gaf hún þær skýringar á vígi eiginmannsins, Robert Kissel, fjármálasérfræðings hjá útibúi Merrill Lynch-bankans í Hong Kong, að hann hefði verið vitfirrtur kókaínfíkill og drykkjusvoli sem neyddi hana ítrekað til afbrigðilegra kynlífsathafna á heimili þeirra. Hefði hún myrt hann í sjálfsvörn. Saksóknari heldur því fram að morðið hafi verið vandlega undirbúið og hafi hún ásælst fé eiginmannsins heitins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×