Innlent

Hönnuð atburðarrás sett af stað til höfuðs Guðmundi

Andri Ólafsson skrifar
Guðmundur Þóroddsson
Guðmundur Þóroddsson

Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) segir að ásakanir um að hann hafi tekið skjöl OR ófrjálsri hendi lykti af pólitík. Hann segir að með því að leka bréfi sem lögfræðingur skrifaði honum fyrir hönd OR í gær hafi "hönnuð atburðarrás" verið sett af stað.

Í gærmorgun barst Guðmundi bréf frá Karli Axelssyni lögmanni þar sem skorað var á hann að skila gögnum sem Guðmundur átti að hafa tekið ófrjálsri hendi úr skjalasöfnum Orkuveitunnar skömmu áður en hann lét þar af störfum. Þá var Guðmundur einnig í bréfinu beðinn um að skila bifreið sem hann hefur haft til afnota í samræmi við ráðningarsamning sinn.

Síðar sama dag flutti sjónvarpið fréttir af málinu og vitnaði í bréfið sem Guðmundur hafði fengið í hendurnar órfáum tímum áður.

"Ég held að það sé ekki tilviljun að ákveðnir blaða og fréttamenn fái þetta bréf í hendurnar nánast á sama tíma og það er skrifað. Það er nánast eins og bréfið sé sérstaklega skrifað til þess að koma því í hendur á þessum sömu blaða- og fréttamönnum," segir Guðmundur og bætir því við að hann hafi ekki heyrt af þessu máli fyrr en hann fékk bréf frá lögmanni í gær.

Hann segir það undarlegt að verið sé að gera athugasemdir við það að hann hafi ekki skilað jeppa sem hann hefur haft til afnota í samræmi við ráðningarsamning sinn.

"Ég ráðfærði mig við lögfræðinginn sem skrifaði ráðningsamninginn fyrir Orkuveituna. Hans mat var það að hlunnindi fylgdu. Engar athugasemdir voru gerðar við það fyrr en í gær," segir Guðmundur.

Varðandi skjölinn sem hann á að hafa tekið ófrjálsri hendir segir Guðmundur að þeim hafi verið útbýtt í fjölriti til stjórnarmanna á stjórnarfundum OR .

"Þetta eru allt skjöl frá því að ég sat stjórnarfundi OR. Sem ég hef ekki gert síðan í ágúst á síðasta ári. Þetta eru allt skjöl sem geymd voru á minni einkaskrifstofu en ekki í skjalasafni OR eins og sagt var í fréttum RÚV og Morgunblaðsins," en það eru þeir fjölmiðlar sem Guðmundur segir að bréfi Karls Axelssonar lögmanns hafi verið lekið til.

"Það er mikil pólitísk lykt af þessu. Þetta eru svipuð vinnubrögð og maður hefur orðið vitni að undanfarið í stjórnmálunum. Það er verið að hanna atburðarrás. Ég skil ekki hvað menn eru að fara í þessu. Og skil ekki hvað er verið að fara á eftir mér. Ég hélt að það væri allt frágengið," segir Guðmundur.

 

 

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×