Skoðun

Erum við sóðar?

Fanný Gunnarsdóttir skrifar

Mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli borgarbúa og annarra á umgengni í borginni. Nú í sumar hef ég sérstaklega tekið eftir rusli og drasli meðfram götum borgarinnar, á umferðareyjum og við gatnamót.

Það er alls ekki óeðlilegt að rusl komi undan snjó og klaka snemma á vorin en þegar komið er vel fram á vor og sumar á borgin að vera vel þrifin og hrein. Því miður hef ég upplifað það að sjá bílstjóra og farþega í bílum henda út um gluggana matarleifum og umbúðum af ýmsu tagi.

Jafnframt hef ég séð gangandi vegfarendur henda frá sér drykkjarumbúðum og öðru er til fellur. Það er eins og fólki finnist allt í lagi að kasta frá sér umbúðum á götur, gangstéttir eða inn í nærliggjandi garða.

Það er alls ekki okkur sæmandi né bjóðandi að horfa upp á gosdósir, sígarettupakka, hálfétnar samlokur, sælgætisbréf og umbúðir utan af ýmsum matvælum liggja út um alla borg. Einnig er ástandið víða bágbrotið á bílastæðum við verslanir og sjoppur – glerbrot og rusl er allt of oft það sem tekur á móti viðskiptavinum. Er ástandið verra núna vegna þess að umgengni hefur almennt versnað eða er hefðbundinni hreinsun borgarinnar ábótavant? Hafa hverfamiðstöðvar og starfsmenn borgarinnar ekki undan að sjá um að halda borginni hreinni?

Ég hef vakið athygli borgaryfirvalda á þessari slæmu umgengni og vona að eitthvað verði gert til að vekja börn, unglinga og fullorðið fólk til umhugsunar. Ég átti von á öflugra og víðtækara átaki borgaryfirvalda hvað varðar almenna umgengni í hverfum borgarinnar m.a. í ljósi þess að borgarstjóri hefur marg­ítrekað áhuga sinn á umhverfismálum. Fyrst og fremst hefur áherslan í vor verið lögð á hreinsun lóða og garða, að uppræta veggjakrot og ásýnd miðborgarinnar. Ég vil alls ekki kasta rýrð á þessi verkefni en meira þarf að koma til, vitundarvakning borgaranna og aukið aðhald frá borgaryfirvöldum.

Að lokum vil ég árétta að það er skylda okkar sem foreldra, uppalenda og ábyrgra borgara að sýna gott fordæmi og sætta okkur ekki við sóðaskap og hirðuleysi sem þetta.

Höfundur er varaformaður Kjördæmasambands framsóknarfélaganna í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×