Erlent

Obama snæddi morgunverð með Tony Blair

Barack Obama forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum er í Lundúnum þessa stundina og ræðir við þarlenda stjórnmálaforingja. Allt yfirbragð heimsóknar hans til Bretlands er á mun lægri nótum en þegar hann var í Þýskalandi og Frakklandi fyrir helgi.

Barack Obama snæddi morgunverð með Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra og ræðir síðar í dag við David Cameron, leiðtoga breska Íhaldsflokksins.

Heimsókn Obamas til Lundúna er í mun lægri gír en heimsókn hans til Berlínar fyrir helgi þar sem hann flutti ástríðufulla ræðu fyrir að minnsta kosti tvö hundruð þúsund manns við Sigursúluna. Bandaríski sendiherrann við bresku hirðina og kona hans tóku á móti Obama á flugvellinum. Þetta er síðasti viðkomustaður frambjóðandans á heimsreisu hans sem ætlað er að sýna hann í nýju ljósi fyrir kjósendur í forsetakosningunum í nóvember.

Eftir fundinn með Brown í morgun hitti Obama fréttamenn á hlaðinu í Downing stræti og sagðist hafa átt frábærar viðræður við breska forsætisráðherrann. Hann sagði þá sammála um að öflugt bandalag yfir Atlantshafið væri nauðsynlegt til að takast á við fjölmörg heimsmál sem nú brynnu á fólki. Í því sambandi mætti nefna hryðjuverk, loftslagsbreytingar og fjármálakreppuna sem nú þjakar fólk og fyrirtæki um allan heim. Kjarnorkuáætlun Írana bar einnig á góma, eins og á öðrum viðkomustöðum forsetaframbjóðandans.

Í París sagði Obama að Íranir ættu ekki að þurfa að bíða eftir kjöri nýs Bandaríkjaforseta til að leysa kjarnorkudeiluna við Vesturlönd. Þvert á móti ættu Íranir þegar í stað að fallast á kröfur Vesturlanda um að stöðva það sem hann kallaði ólöglega kjarnorkuáætlun. Íranir halda því fram að þeir hafi engan áhuga á kjarnorkuvopnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×