Innlent

„Fáránlegt að taka lán fyrir bíl eða jakkafötum“

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
„Það er í raun og veru glæpsamlegt finnst mér að rukka 25 prósent vexti," segir Salmann Tamimi, formaður félags múslima á Íslandi. Múslimar búa við nokkuð sem mörgum öðrum þætti líklega eftirsóknarvert í miðri kreppunni. Samkvæmt trú sinni mega þeir hvorki þiggja né greiða vexti af lánsfé.

„Þetta er í raun djöfulleg hugsun þessir vextir, þetta er bara til að halda fólki í fjötrum og vera þrælar nútímans," segir Salmann. Hann segir það óréttlátt að þeir sem eigi pening græði á því að þiggja vexti. „Við erum öll sköpuð til að vinna og framleiða í þágu samfélagsins. Ekki bara sitja heima og sópa að okkur peningum fyrir erfiði fólksins."

Lánastofnanir fyrir múslima fyrirfinnast þó, og eru meira að segja starfræktar á Vesturlöndum. Salmann segir þær virka þannig að fólk gerist í raun hluthafar í bankanum með því að leggja inn í hann pening. Ef bankinn græðir græðir hluthafinn. Að sama skapi á bankinn í því sem hann lánar fyrir þangað til lánið hefur verið greitt til baka. Selji fólk hús sitt með hagnaði fær bankinn þannig hlutdeild í honum í samræmi við eignarhlutfall sitt.

Salmann reiknar með því að múslimar hér á landi séu um þúsund talsins. Hann segir að eins og aðrir fylgi múslimar kennisetningum trúar sinnar mismikið. Margir sem hann þekki taki alls ekki lán hjá bönkunum. Sumir taki þó húsnæðislán, enda segi sumir fræðimenn að sé ekkert annað í boði sé í lagi að taka hefðbundin lán fyrir nauðsynjum.

„En að taka lán til að kaupa sér bíl eða jakkaföt, það er fáránlegt. Maður gerir það ekkert" segir Salmann. „Það er sorglegt að sjá fólk með tíu ára gamla bíla sem enn hvílir á 2-3 milljóna skuld og það getur ekki selt," segir Salmann. „Maður þarf að velja hvort maður vill vera vera á flottum bíl og vera þræll, eða vera frjáls á druslu."
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×