Innlent

Ungir jafnaðarmenn hyggja á mótmæli við meirihlutaskipti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, segir það vel geta farið svo að hún muni standa að mótmælum í Ráðhúsinu næstkomandi fimmtudag, þegar nýr meirihluti tekur við í borgarstjórn. „Það getur meira en vel verið, án þess að ég ætli að fara að upplýsa um það núna hvernig það verði gert," segir Anna Pála í samtali við Vísi.

Anna Pála stóð ásamt fjölda annarra að mótmælum í Ráðhúsinu þegar meirihluti F-lista og sjálfstæðismanna tók við völdum. Þá mættu hundruð Reykvíkinga til þess að láta í ljós óánægju sína. Anna Pála segist allt eins eiga von á því að jafn margir taki þátt í mótmælum núna. „Það eru í það minnsta jafn margir reiðir. Og fólk þarf að passa sig á því að láta það í ljós þegar það er ekki sátt. Það er aðhaldið sem við höfum fyrir utan kosningar á fjögurra ára fresti," segir Anna Pála.

Anna Pála vísar í ályktun sem Hallveig, félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, samþykkti nýlega þar sem stungið er upp á því að þingmenn setji bráðabirgðalög um kosningar. „Ég er ekki endilega að tala um að breyta sveitastjórnarlögum þannig að lítil sveitafélög úti á landi geti efnt til kosninga á hálftíma fresti. En aðstæður í Reykjavík kalla á bráðabirgðalög þannig að hægt verði að kjósa núna," segir Anna Pála.

Anna Pála segir það kaldhæðnislegt að yfirskrift yfirlýsingar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sé „Höldum áfram" í ljósi þess hvernig saga þessa kjörtímabils hafi verið.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×